„Utanríkisráðherrann tók kanínu upp úr pípuhatti sínum og þingmennirnir trúðu einfaldlega eigin augum.“
Í andstöðu sinni við ráðherra og þingflokk Sjálfstæðisflokksins grípur Davíð Oddssonar til fyrrum félaga síns, og annars fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar. Báðir eru formennirnir fyrrverandi í andstöðu við sinn gamla flokk. Þeir hafa annars ólíkar skoðanir á þriðja orkupakkanum.
Þorsteinn, sem er góður penni, skrifar greinar á vef Hringbrautar. Í nýjustu grein sinni skopast hann með stöðuna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það gleður Davíð.
Þrátt fyrir að Davíð nýti sér góð skrif Þorsteins gefur hann sterkt til kynna að hann er lítt hrifinn af forvera sínum á stóli formanns flokksins:
„Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem tók óvænt að sér það hlutverk að hotta á hjörðina sem hljóp úr Sjálfstæðisflokknum vegna blindrar ástar sinnar á ESB, skrifar athyglisverðan pistil og fékk hýstan á Hringbraut sem er sjónvarpsstöð. En þótt pistillinn sé eftirtektarverður er það óneitanlega sérstætt að þessi mikli áhugamaður um að troða „orkupakkanum“ niður um kokið á Íslendingum gerir stólpagrín að utanríkisráðherra landsins fyrir ótrúlegan málatilbúnað hans.“
Næsta tilvitnun er í skrif Þorsteins og Davíð brúkar í leiðara dagsins:
„Almennt er rangt og ámælisvert að beita blekkingum. Í sumum tilvikum er það refsivert. En samt er það svo að blekkingar geta verið réttlætanlegar og jafnvel lofsverðar. Töframenn draga til að mynda kanínur upp úr pípuhöttum sínum öðrum til gleði og ánægju. En því er á þetta minnst að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þurfti að grípa til kúnstar af þessu tagi til þess að geta lagt þriðja orkupakkann fyrir Alþingi. Og satt best að segja á hann fullt lof skilið fyrir vikið.“
Meira af grein Þorsteins, sem í dag er meginstoð leiðara Davíðs:
„Utanríkisráðherrann tók kanínu upp úr pípuhatti sínum og þingmennirnir trúðu einfaldlega eigin augum. Það er yfirleitt óheiðarlegt að beita blekkingum í pólitík en í þessu tilviki var það gert með einkar saklausum en um leið aðdáunarverðum og áhrifaríkum hætti. Og það voru ríkir almannahagsmunir í húfi. Þegar horft er á málavöxtu í þessu ljósi fer ekki á milli mála að utanríkisráðherra á lof skilið fyrir að hafa leyst málið. Engu breytir þar um þó að það hafi verið gert með þessum óvenjulega hætti. Lofið er ef til vill fremur verðskuldað einmitt fyrir þá sök.“
Best að fara hefðinni og leyfa Davíð að eiga lokaorðið. Reyndar með kryddi frá Þorsteini:
„Formaðurinn fyrrverandi heldur áfram og nefnir að Morgunblaðið láti ekki segjast og telur að það stafi af því að þar sé horft lengra fram í tímann. Síðar komi að því segir hann, þegar búið sé að „fórna peði til að ná þriðja orkupakkanum fram“, að þá verði „einfaldlega færri kostir um varnir þegar kemur að þeirri stundu að aðildarviðræðurnar fara aftur á dagskrá. Það gæti þess vegna gerst innan þriggja ára.“
Þessi orð skýra hvers vegna Viðreisn og Samfylking leggja slíka ofuráherslu á að fá þriðja orkupakkann samþykktan. En hvað skýrir afstöðu annarra flokka?“