Fréttir

Ná ekki hálfri leigu af Perlunni

By Miðjan

July 01, 2014

Stjórnmál Ef leigutekjur af Perlunni væru þær sem venja er að gera ráð fyrir þyrfti að gera meira en tvöfalda þær, þetta kemur fram í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í borgarráði.

Borgin keypti Perluna af Orkuveitinni fyrir 950 milljónir króna. Borgarráð hefur samþykkt leigusamning sem gefur af 35 milljónir króna á ári. Í bókun Sjálfstæðismanna segir:

„Fyrir nokkru síðan keypti Reykjavíkurborg Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 m.kr. og létu borgarbúa um að taka á sig að koma þeirri eign í verð í stað þess að selja hana á almennum markaði. Það er almenn regla hjá Reykjavíkurborg að leigutekjur á ári miðist við 8% af virði eignarinnar sem myndi hljóða upp á 76 m.kr. í leigutekjur á ári í þessu tilfelli. Í stað þess er ljóst að langt er frá því að slík upphæð fáist en leigutekjur af eigninni eru u.þ.b. 35 m.kr. á ári. Borgarbúar sitja því uppi með afar slæma fjárfestingu í boði meirihlutans í Reykjavík.“