Ónefndur bílstjóri Hópferða ók eftir Reykjanesbrautinni skrollandi í farsímanum sínum. Um borð var full rúta af farþegum og náðist hinn kæruleysislegi akstur á myndband sem ferðast um samfélagsmiðla.
Það var Pamela De Sensi, flautuleikari og tónlistarkennari, sem tók myndbandið og deildi því á Facebook í gærkvöldi. Þar segir hún:
„Það er mikilvægt að halda fókus, en sumir misskilja hvað er mest mikilvægt. Hún gerði þetta nokkrum sinnum, þar til ég kvartaði harkalega,“ segir Pamela.
Pamela bendir á að rútan hafi verið troðfull af farþegum. Þegar hún tók eftir því að bílstjórinn var alls ekki með athyglina á veginum ákvað hún að taka það upp á myndbandið sem sjá má hér fyrir neðan. Þar má sjá bílstjórann með hugann við símann sinn meðan ekið var eftir Reykjanesbrautinni.