Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu ekki geta sæst á þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Það er útilokað. Vinstri græn verða að setjast að snæðingi og éta þetta heilaga mál ofan í sig. Þau eru ýmsu vön í þeim efnum. Bitinn sá verður ekki góður. Óbragðið verður mikið.
Þinglið Framsóknar og Sjálfstæðis er í vondum málum. Kvittað var upp á þjóðagarðshugmyndina í stjórnarsáttmálanum. Það mun ekki duga. Sunnlenskir sjálfstæðismenn komu saman og bókuðu: „Hugmyndirnar eru aðför að lýðræði og frelsi í landinu. Þær eru aðför að sveitarfélögum á Íslandi og draga úr einstaklingsframtaki við náttúruvernd. Nái tillögurnar fram að ganga verður frumkvæði landeigenda og ábúenda við uppgræðslu á afréttum sem þeir nýta kæft um leið og stjórnsýslustofnun þjóðgarðsins tæki þau verkefni yfir. Það bitnar á endanum á náttúrunni og skattgreiðendum.“
Þetta birtist í Mogga dagsins. „Hugmyndir umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð eins og þær birtast í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar eru ekki nægilega vel ígrundaðar, unnar í of miklum flýti og án eðlilegs samráðs við íbúa og nærsamfélög umrædds svæðis.“ Þetta er lík afrakstur fundarins.
Það er tómt mál að tala um þinglið Fálkans fari gegn þessu. Tómt mál.
Guðni Ágústsson skrifar grein um sama mál í sama Mogga.
„Maður hélt nú að þótt bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn gengju undir rauða regnhlíf Vinstri-grænna um stund hefðu þeir ekki samþykkt að láta þeirra villtustu drauma um ríkiskapítalisma rætast.
Ég bið heldur um að bændur og vinnuklæddir hreppsnefndarmenn landsbyggðarinnar haldi utan um frelsi fjallanna með forsætisráðherra, eins og málið stendur nú. Það ríkir engin neyð á þjóðlendunni.“
Nú reynir á. Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, er kominn upp við vegg. Framsókn og Fálkinn gefa sig ekki. Geta það ekki. Hingað til hefur VG étið bæði hrátt og soðið. Gera þau það enn?
-sme