- Advertisement -

Mun taka áratug að vinda ofan verkum Bjarna Ben í fjármálaráðuneytinu

Mér fannst ekki margt breyt­ast með til­komu Vinstri-grænna í þessa rík­is­stjórn og varðandi breiðu lín­urn­ar í fjár­mál­um og efna­hags­mál­um, þá breytt­ist ekki mikið.

Kristrún Frostadóttir.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er í löngu viðtali í Mogga morgundagsins. Hún hrósar ekki Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið er langt. Á einum stað spur blaðamaður Moggans:

Hvað mun breyt­ast á fjór­um árum ef þú kemst í rík­is­s­stjórn og verður hugs­an­lega for­sæt­is­ráðherra?

„Margt af því sem ég vil að Sam­fylk­ing­in geri mun ekki eiga sér stað á fjór­um árum. Mér fannst ekki margt breyt­ast með til­komu Vinstri-grænna í þessa rík­is­stjórn og varðandi breiðu lín­urn­ar í fjár­mál­um og efna­hags­mál­um, þá breytt­ist ekki mikið. Við erum búin að vera með sama fjár­málaráðherra í yfir ára­tug, og það hef­ur haft mik­il áhrif á sam­fé­lagið. Það mun taka ára­tug að snúa aft­ur á rétta braut. Ég er ekki bylt­ing­ar­sinnuð og sag­an sýn­ir að það borg­ar sig ekki að boða til bylt­ing­ar, það er hins veg­ar hægt að taka hæg en ör­ugg skref í ákveðna átt.

Katrín Jakobsd´óttir og Bjarni Benediktsson.
Kristrún: „Það er ekki eðli­legt að við séum að reka hag­kerfi á minni tekj­um miðað við það sem áður var.“

Það þarf að end­ur­skoða hvernig við fjár­mögn­um vel­ferðar­kerfið. Þá er ég að tala um heil­brigðis­kerfið, fjár­mögn­un sem fer í upp­bygg­ingu á hús­næði og stuðning við op­in­ber hús­næðisúr­ræði. Þetta eru kostnaðar­söm úrræði. Það kost­ar til að mynda mjög mikið að bæta starfsaðstæður og mönn­un í heil­brigðis­kerf­inu eða efla al­manna­trygg­ing­ar. Það þarf að end­ur­skoða skatt­kerfið að hluta til og það þarf að byrja í fjár­málaráðuneyt­inu og end­ur­skoða tekju­hliðina því stór ástæða þess að við erum með halla á rík­is­sjóði er ekki bara út­gjalda­vandi held­ur tekju­vandi. Ef maður skoðar fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar þá verða tekj­ur rík­is­sjóðs und­ir lok fjár­mála­áætl­un­ar, miðað við þrjá­tíu ár þar á und­an, með lægsta móti sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu.

Í nú­tíma­sam­fé­lagi eru gerðar mikl­ar kröf­ur til vel­ferðarþjón­ust­unn­ar. Ein­stak­ling­ar sem búa við fötl­un verða að fá þjón­ustu við hæfi, ung börn eiga að fá fyrsta flokks þjón­ustu og við verðum að veita góða geðheil­brigðisþjón­ustu. Þetta kost­ar pen­ing. Það er ekki eðli­legt að við séum að reka hag­kerfi á minni tekj­um miðað við það sem áður var.

Það hafa ekki orðið al­menni­leg­ar breyt­ing­ar á fjár­mála­hliðinni í lang­an tíma. Ég hræðist eng­an veg­inn umræðu um fjár­mögn­un, sem þarf að vera sann­gjörn og rétt­lát.

Efna­hags­hliðin er grund­vallar­for­senda trú­verðug­leika í vel­ferðar­mál­um. Þetta mikla vald sem er í fjár­málaráðuneyt­inu hef­ur áhrif á alla vel­ferðar­póli­tík­ina í nú­ver­andi rík­is­stjórn vegna þess að engu er komið í verk í heil­brigðisráðuneyt­inu ef fjár­málaráðuneytið styður það ekki.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: