„…mun ríða Sjálfstæðisflokki að fullu“
„Við forystu Sjálfstæðisflokksins vil ég segja: Gerist ekki annað tveggja sem ég hef nefnt hér að ofan, þá er víst að við munum sjá brottför á borð við þá sem þjóðkirkjan hefur séð. Af miklum undirtektum við það sem ég hef sagt leyfi ég mér að fullyrða að áframhaldandi stjórnleysi mun ríða Sjálfstæðisflokknum að fullu. Það yrði Íslandi dýr lexía,“ skrifar Einar S. Hálfdánarson lögmaður og að ég held félagi í Sjálfstæðisflokki.
En hvað er það sem Einar mislíkar svo mjög:
„Í mínum huga og þeirra fjölmörgu annarra sem ég hef verið í sambandi við kemur bara tvennt til greina: Að lög, reglur og framkvæmd um umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sett í sama horf og í nágrannaríkjum okkar, svo og landamæravarsla, reglur um ferðaskjöl, skráningu farþega fyrir komu o.s.frv. Og að þetta verði ákveðið innan mánaðar. Margt af þessu getur ráðherra gert án tafar og þarf ekki lagabreytingu til. En fegrunaraðgerð dugir okkur ekki. Að öðrum kosti verði efnt til kosninga. Það er engan veginn víst að skynsemin hafi yfirhöndina í slíkum kosningum. Þvert á móti. Fjölmiðlarnir, einkum mbl.is, hafa verið mjög hallir undir skrílræðið. En þá verður óstöðvandi straumur ólöglegra innflytjenda á þeirra ábyrgð. Afleiðingarnar eru fyrirsjáanlegar. Um það vitna Svíþjóð og forsætisráðherrann þar berum orðum. Börnum okkar og barnabörnum er enginn greiði gerður með því að fresta hörmungum af mannavöldum fari svo að skrílræðið verði ofan á.“
Fyrr í greininni finnur Einar verulega að niðurstöðunni í máli egypsku fjölskyldunnar. „Hér er staðan óvenju sláandi. Umsækjandinn er meðlimur í öfgasamtökunum Bræðralagi múslima,“ segir í skrifum Einars S. Hálfdánarsonar.