- Advertisement -

Mun forystufólkið „lifa af“ orkupakkann

…að við erum bara „aftanívagn“ 17 sinnum fjölmennara ríkis…

Ragnar Önundarson skrifar:

„Betri er mögur sátt en feitur dómur“, segja reyndir lögmenn stundum. Sumum dettur í hug að best sé að leysa ágreiningsmál með því að „höggva á hnúta“, t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu. Sé efnt til slíks er aldrei fyrirséð hvernig það fer, eftir hræðsluáróður á báða bóga. Eftir stæði þjóðin klofin í herðar niður, annar hópurinn sigri hrósandi en hinn gnístandi tönnum og ófriðurinn héldi áfram nú yrði það aðildin að EES sem yrði átakamálið, þó sátt sé um hana nú. Að þingið „valti yfir“ þjóðina eða flokkar „valti yfir“ flokksmenn sína hefur slæm áhrif. Mögur sátt er betri en feitur Salómonsdómur.

Vandi okkar felst í því að við aðildina að EES afsöluðum við okkur ekki bara sjálfsákvörðunarrétti um mikilvæg mál: Við samþykktum að gera mál lögbundin, innleiða þau, þó engin eða lítil umræða hefði farið fram, eins og gerist annars. Við erum líka núna fyrst að átta okkur á því að við erum bara „aftanívagn“ 17 sinnum fjölmennara ríkis, sem leyfir okkur að hanga með, svo fremi sem við völdum þeim ekki vandræðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er afleiðing þess að við lofuðum ESB að elta löggjöf þess nánast í blindni.

Almenningur vill njóta þeirrar ódýru, hreinu orku sem henni hefur verið lofað í tengslum við sérhverja nýja virkjun, árum og áratugum saman. Samt samþykkti Ísland 2.OP 2003, þ.e. að koma á „markaðsbúskap“ í orkuframleiðslu og að rafmagn skuli vera „vara“, háð fjórfrelsinu. Almenningur gerði sér ekki grein fyrir hvert var verið að leiða þjóðina. Í mikilvægustu málum okkar verðum við að móta okkar eigin stefnu, að loknum ítarlegum umræðum og fenginni bærilegri sátt. Þetta er afleiðing þess að við lofuðum ESB að elta löggjöf þess nánast í blindni.

Nú stefnir í að 3.OP verði afgreiddur án sáttar og af þeirri ástæðu að við lofuðum að gera það. Þetta er ógæfuleg aðferð og vanhugsuð. Seint mun gróa um heilt, hvort sem forystufólk flokkanna „lifir af“ í kjölfarið eða ekki. Þetta er dapurlegt, af því að sáttaleiðir eru til. Leitið og þér munuð finna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: