Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:
Þær jákvæðu fréttir bárust í dag að Arion banki ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum uppá greiðsluhlé til allt að þriggja mánaða, og lengur ef þarf, til að takast á við breyttar aðstæður sem skapast geta vegna veirunnar.
Bankinn lýsir því réttilega yfir að þetta kosti hann ekki krónu en geti haft áhrif á greiðsluflæði tímabundið. Aðgerðin getur hinsvegar haft úrslitaáhrif um afkomu og velferð fólks sem lendir í greiðslufalli vegna atvinnumissi eða af öðrum ástæðum.
Þetta er úrræði sem ætti alla jafna að vera til staðar í fjármálakerfinu og hefði skipt sköpum í eftirmálum hrunsins 2008.
Ég á ekki von á öðru en hinir bankarnir og lífeyrissjóðirnir taki uppá að bjóða greiðsluhlé vegna þeirra aðstæðna sem fyrirséð að geti skapast í íslensku samfélagi.
Slíkur sveigjanleiki er nauðsynlegur og í takt við það sem við höfum verið að kalla eftir.
Þessi aðgerð þarf ekki kosta sjóðina eða bankana eina einustu krónu en það er saga til næsta bæjar ef bankar og lífeyrissjóðir eru farnir að hugsa með samfélagslegum hætti.
Og ekki má gleyma LÍN þar sem sambærilegar tilslakanir verða að vera í boði.