- Advertisement -

Mótvægi við gömlu flokkana

„Við erum mótvægi við gömlu flokkana. Við erum vettvangur fólks sem kom saman vegna þess að við gátum ekki hugsað okkur, og höfðum sum prófað það, að starfa í gömlu flokkunum. Í gömlu flokkunum er fullt af mjög góðu fólki, allt að leggja sitt af mörkum, en menningin er gömul, hún er uppfull af ósiðum og það þarf að berjast gegn þeim. Við verðum oft vör við það á þingi hvað ósiðirnir, hvað gamla menningin flækist fyrir okkur. Við vildum stofna flokk og höfum stofnað flokk sem tekur ekki þátt í gömlum deilum, af því bara. Við viljum berjast gegn gömlum hefðum. Við erum óbundin af gömlum rótgrónum hagsmunum. Við byrjuðum með autt blað. Við stofnuðum flokk eins og við viljum hafa hann, byggðan á gildum sem við settum á A4-blað, sem sameina okkur. Þetta er flokkur fyrir 21. öldina. Við trúum því að það sé til eitthvað í öllum málum sem heitir skynsamleg niðurstaða. Við trúum því að besta leiðin til að ná skynsamlegri niðurstöðu sé samtal, samtal milli ólíks fólks þar sem fólk leggur ólíkar skoðanir í púkkið. Við viljum meina að í gömlu flokkamenningunni, alveg sama þótt allir leggi sitt af mörkum innan þeirrar menningar, hafi mistekist að leggja rækt við þetta samtal.“

Þetta er hluti þess sem Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartar framtíðar, sagði á Alþingi í gærkvöld. Hann hélt áfram að tala um flokkinn sem hann gegnir formennsku fyrir og systurflokkinn, Besta flokkinn.

 Úrelt pólitísk menning

„Við sjáum hvernig Besti flokkurinn hefur starfað í borginni. Það er lýsandi fyrir það hvernig við viljum nálgast pólitík. Þar sáum við dæmi um hina úreltu pólitísku menningu sem hafði m.a. lagt Orkuveitu Reykjavíkur í rúst. Það þurfti að koma inn með ferska nálgun, nýtt samtal. Besti flokkurinn fór inn í Orkuveitu Reykjavíkur ásamt Samfylkingunni og umturnaði því fyrirtæki algjörlega. Það blasir ekki lengur við gjaldþrot. Það þurfti að taka erfiðara ákvarðanir. Nýtt aðalskipulag í Reykjavík er ótrúlega fallegur og tær vitnisburður um þetta samtal og hvað getur sprottið af því þegar það tekst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við viljum leggja áherslu á þetta líka hér á þingi og höfum gert það þann fyrsta þingvetur sem Björt framtíð hefur starfað. Þetta er eitt meginerindi okkar í pólitík, að búa til samtalið og leggja rækt við það. En til þess að taka þátt í samtalinu verður að hafa skoðanir. Það eru engin skoðanaskipti án skoðana. Við höfum þær í ríkum mæli.“

 Tilhneigingar…

Við förum fram undir merkjum frjálslyndis. Við teljum að það sé ærin þörf á flokki sem leggur áherslu á það hugtak, frjálslyndi. Einangrunartilhneigingin, einangrunarstefnan er það rík í þessu samfélagi, á þessu eyríki. Tilhneigingar til hafta eru ríkar. Tilhneigingar til forræðishyggju. Tilhneiginga til neyslustýringar. Tilhneigingar til einokunar og samkeppnisleysis. Þessu öllu þarf að berjast gegn. Það er erindi Bjartrar framtíðar.

Við setjum mannréttindi á oddinn. Það er ekki bara innihaldslaust. Við teljum að mannréttindi sé málaflokkur sem þarf að standa vaktina í. Þess vegna leggjum við áherslu á að fatlað fólk njóti sjálfstæðs lífs. Það nýtur þess ekki núna. Við leggjum áherslu á að börn fái notið beggja foreldra sinna eftir sambúðarslit. Við vorum að samþykkja slíkt mál í þinginu sem við lögðum fram.

Við teljum að það þurfi að standa vaktina um umhverfismál. Við teljum að það sé rík þörf á flokki sem er grænn en er ekki vinstri flokkur. Við erum frjálslyndur grænn mannréttindaflokkur.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: