Oddný Harðardóttir skrifar:
Noregur er ríkur af auðlindum og það er Ísland líka. Munurinn er hins vegar sá að Norðmenn eru óhræddir við að leggja á auðlindagjöld sem renna í ríkissjóð og til sveitarfélaga. Það erum við hins vegar afskaplega léleg í. Nægir að líta á veiðigjöldin sem útgerðir greiða en þau eru á pari við gjaldið sem reykingamenn greiða (tóbaksgjaldið). Og fjármálaráðherra vill alls ekki auðlindarentuskatt á orkufyrirtæki. Við fáum arðgreiðslur af Landsvirkjun og virkjunum í opinberri eigu en njótum ekki auðlindarentunnar af orkufyrirtækjum í einkaeigu. Hún rennur óskipt til eigenda þeirra fyrirtækja sem greiða sér arð sem er sérlega hár vegna þess að þeir fá auðlindina á silfurfati.
Þegar ég spurði almennt um orkuskatt af fyrirmynd Norðmanna fyrir tveimur árum taldi fjármálaráðherra að hann gæfi 7 milljarða króna. Fullyrðingar um að auðlindarentuskattur verði til þess að raforkuverð hækki eru úr lausi lofti gripnar enda er samkeppni á raforkumarkaði og slíkur skattur skiptir orkufyrirtækin í opinberri eigu. Þau greiða þá bara lægri arð til eigenda sinna í staðinn.
Við eigum að njóta auðlindarentunnar og byggja upp innviði og fjölbreytt atvinnulíf allt í kringum landið. Allt fyrir auðmennina virðist hins vegar vera mottó ríkisstjórnarinnar í þessu sem öðru.