Rúmlega sex þúsund manns hafa skráð sig í mótmæli á Austurvelli í dag og hefjast þau klukkan fimm. Fólk er hvatt til þess að koma með potta, pönnur og skilti með sér. Hópurinn hyggst mótmæla fyrirætluðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og nefnir í því sambandi þá fyrirætlun að meina fólki eldri en 25 ára aðgang að framhaldsskólum.
Segir á Facebook síðu atburðarins að lögð sé áhersla á að mótmælin verði friðsamleg og laus við allt ofbeldi. Segir þar ennfremur: Við erum reið, en við kunnum okkur. Þessi ríkisstjórn er einfaldlega glötuð og við ætlum að mæta öll, hvert með sitt ólíka mál og láta í okkur heyra.