- Advertisement -

Mótmæla rafrænu skilríkjunum

Neytendasamtökin skora á stjórnvöld að bjóða upp á aðrar leiðir en rafræn skilríki við að samþykkja leiðréttingu húsnæðislána. Ekki eru allir farsímar sem styðja við rafræn skilríki. Samtökin spyrja hvað verði gert fyrir þá sem eiga þannig síma, aldraða og öryrkja.

Á síðu samtakanna segir að svo virðist sem fólki eigi að geta pantað sér ný símkort frá sínu símafyrirtæki en í samskiptum samtakanna við fyrirtækin hafi komið fram að þau séu  sum hver illa undir þetta búin og óttist þann hraða sem sé á málinu. Eins og er kostar ekkert að vera með rafræn skilríki í síma en svo virðist þó sem mögulega verði innheimt sérstakt gjald fyrir þjónustuna síðar meir.

Segja samtökin að svo virðist sem allir bankar séu hættir að gefa út debetkort með rafrænum skilríkjum en hjá Landsbankanum virðist hægt að „skjótast“ í næsta útibú og virkja eldri debetkort sem rafræn skilríki.  Ekki virðist þó alveg ljóst af hverju bankarnir séu hættir að gefa út debetkort sem hægt er að virkja sem rafræn skilríki, en þess ber þó að geta að Síminn, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion eiga fyrirtækið Auðkenni.

Hjá Auðkenni er hægt að fá rafræn skilríki, gegn 1500kr gjaldi auk seðilgjalds, og gilda þau í eitt ár. Segir á síðu NS: Ef við gefum okkur að á endanum fái 50.000 manns sér slík kort, kosta þau samtals 75 milljónir króna og því til mikils að vinna fyrir eigendurna (bankana) að koma rafrænum skilríkjum á koppinn sem fyrst. Raunar – en þetta hefur þó ekki verið mikið í umræðunni – geta þeir sem eiga rétt á „leiðréttingu“ fengið skilríki með sex mánaða gildistíma endurgjaldslaust. Slík kort þarf að sækja um á vefsvæði „leiðréttingarinnar“ og opnað verður fyrir umsóknir um miðjan mánuðinn. Er þá ekkert annað eftir fyrir þá en að panta slík skilríki og „skjótast“ svo í bankann og virkja þau, verða sér úti um kortalesara sem þarf að kaupa sérstaklega (á 500-1.700 kr. eftir bönkum og vildarkerfum) og hlaða svo niður ákveðnum hugbúnaði svo hægt sé að nota kortið. Einfalt! En hvað með aldraða og fólk með lítið tölvulæsi?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Spyrja samtökin hvers vegna það sé ekki hægt að staðfesta leiðréttinguna á sama hátt og skattframtalið eða með Íslykli sem sé nokkuð nýtt kerfi, gegnum heimabanka eða heimsókn til skattstjóra. Vilja samtökin fá rökstuðning fyrir því flækjustigi sem staðfestingin krefst.

Sjá frétt á vef Neytendasamtakanna.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: