„Þrátt fyrir baneitrað andrúmsloft innan ríkisstjórnarinnar vill Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, reyna að láta stjórnina skrimta áfram og vonast eftir kraftaverkum sem gætu snúið afleitu fylgi stjórnarflokkanna við. Allar skoðanakannanir mæla stjórnarflokkunum fylgishrun. Nýjasta Gallup-könnun sýnir að fylgi stjórnarflokkanna samtals er komið niður í 36 prósent og stjórnin því kolfallin ef úrslit kosninga yrðu svipuð niðurstöðum kannana.“
Þetta skrifar Ólafur Arnarson á vef Hringbrautar.
„Margar ástæður eru fyrir því að stjórnarsamstarfið gengur illa, heilindi milli einstakra flokka virðist vera fokin út í veður og vind, lítil samstaða er um afgreiðslu mikilvægra mála og ráðherrar hinna flokkanna eru jafnvel vændir um hrein óheilindi og svik. Skýrasta dæmið um slíkt er vafasöm, og að margra mati ólögmæt, ákvörðun Svandísar Svavarsdóttir um að stöðva hvalveiðar þvert á ríkisstjórnarsáttmálann. Mörgum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins þykir óþolandi hvernig Svandís hefur komist upp með að niðurlægja flokksforystuna með sinni framkomu án þess að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða.
Illska sýður á mörgum flokksmönnum og sumir spara ekki stóru orðin. Í leiðara Morgunblaðsins, þriðjudaginn 1. ágúst,notar ritstjóri blaðsins orðin „ögranir, óbilgirni og óheilindi“ um framkomu Svandísar Svavarsdóttur vegna stöðvunar hvalveiða. Davíð Oddsson hefur alltaf verið óragur við að láta andstæðinga Sjálfstæðisflokksins fá það óþvegið þegar þeir hafa átt það skilið að hans mati.
Með orðum sínum er hann einnig að snupra forystu flokksins fyrir linkind og kjarkleysi í samskiptum við Vinstri græna, dvergflokk forsætisráðherrans, sem kemst upp með hvað sem er í stjórnarsamstarfinu.“
Greinin er hinn ágætasta afþreying:
„Fjöldi áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum hefur tjáð sig um ástandið á ríkisstjórnarheimilinu og telja flestir þeirra að stjórnarsamstarfinu verði ekki haldið áfram nema til grundvallarbreytinga komi á afgreiðslu margra mikilvægra mála. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig eru Elliði Vignisson, fyrrum bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Óli Björn Kárason (sem Svandís Svavarsdóttir virðist þó hafa barið niður), Brynjar Níelsson, varaþingmaður, Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari flokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra, Ásmundur Friðriksson, þingmaður og Jón Gunnarsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra. Sjálfstæðismönnum finnst á flokkinn hallað og að allt of mikið hafi verið gefið eftir, jafnvel þannig að niðurlægjandi sé.
Bjarni Benediktsson hefur verið í orlofi og ekki látið fjölmiðla ná sambandi við sig. Hann hefur hins vegar komið þeim skilaboðum á framfæri við félaga sína í fremstu forystu flokksins að þeir eigi nú að róa sig enda ætli Bjarni að láta stjórnarsamstarfið skrimta enn um sinn, helst sem lengst fram eftir kjörtímabilinu. Hann segir að markmiðið sé að ná verðbólgunni niður og þar með vöxtum og það muni leiða til þess að fylgi stjórnarflokkanna muni vaxa að nýju og þá takist að stöðva stórsókn Samfylkingarinnar sem formenn núverandi stjórnarflokka horfa á skelfingu lostnir. Formann Sjálfstæðisflokksins dreymir um betri tíð. En ekkert er fast í hendi um að stórlega muni draga úr verðbólgu og víst er að Seðlabanki Íslands mun draga lappirnar þegar kemur að lækkun vaxta eins sporléttur og hann hefur nú verið í hækkunarferlinu.“
Nú er komið að kræsilegri upptalningu:
„Hitt er svo annað mál að ekki er sjálfgefið að lækkun verðbólgu og vaxta muni endilega bæta hag ríkisstjórnarinnar mikið. Fjölmörg mál grafa undan trúverðugleika hennar og fylgi. Hér á eftir fara nokkur dæmi um það:
- Íslandsbankamálið þykir dæmigert fyrir stjórnleysi ríkisstjórnarinnar, lausatök og sukk.
- Lindarhvolsmálið er með sóðalegri sukkmálum seinni ára á Íslandi. Ríkisstjórnin treystir því að málið sé svo flókið að kjósendur skilji það ekki.
- Stöðvun Svandísar Svavarsdóttur á hvalveiðum er væntanlega ólögmæt og ekki verður séð hvernig stjórnarflokkarnir ætla að ná sátt um málið.
- Stöðvun virkjanaframkvæmda í Þjórsá veldur vandræðum og vonbrigðum.
- Engin samstaða er um stefnumótun varðandi móttöku flóttamanna og hælisleitenda. Djúpstæður ágreiningur þar milli Sjálfstæðisflokks og VG.
- Íslendingar eru ekki að standa við loforð sín á sviði loftslagsmála þrátt fyrir mörg orð og stórar yfirlýsingar ráðherranna.
- Ríkissjóður er rekinn með stöðugum fjárlagahalla á langri vakt Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
- Sjálfstæðisflokkurinn gengur þvert á stefnu sína um að hamla gegn útþenslu ríkisbáknsins. Ríkisstarfsmönnum fjölgar langt umfram það sem gerist á almenna markaðinum.
- Ekki hafa verið gerðar endurbætur á vinnulöggjöfinni. Varaformaður Vinstri grænna stakk því máli undir stól án athugasemda frá ráðherrum eða þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
- Illa fer í marga kjósendur að horfa upp á fordæmalausa eyðslusemi og sukk í æðsta lagi stjórnsýslunnar. Áberandi dæmi um slíkt er að keypt sé dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins undir tvö af ráðuneytunum á sama tíma og verið er að byggja fimm hæða kontóra yfir starfsfólk Alþingis og þingmenn. Dæmin um eyðslusemina og sukkið blasa alls staðar við. Þó er hér ekki fjallað um fjárfestingarslysið sem stendur yfir í húsnæði Hótels Sögu fyrir Háskóla Íslands.
Öll þessi mál og fjölmörg önnur munu gera það að verkum að möguleg lækkun verðbólgu og vaxta munu ekki geta bjargað töpuðum trúverðugleika þessarar ríkisstjórnar og fylgi sem fokið út í veður og vind.
Formaður Sjálfstæðisflokksins glímir svo við þann prívat vanda að flokkurinn mælist með minnsta fylgi allra tíma í öllum kosningum sem hann hefur gengið gegnum, – nú síðast hlaut hann stuðning 24,4 prósents kjósenda. Mest var fylgi flokksins 48 prósent í kosningum 1933, og oft var það á bilinu 36 til 40 prósent árin áður en Bjarni Benediktsson tók við formennsku. Til viðbótar við þennan slaka árangur sýna nú allar skoðanakannanir allra mælingarfyrirtækja að fylgið virðist enn vera á niðurleið. Minnst hefur það mælst 16 prósent.
Bjarna langar vitanlega að kveðja forystuhlutverk sitt í flokknum með öðrum hætti en hér er lýst. En aðstæðurnar eru með þeim hætti að ekkert bendir til þess að Bjarna muni takast það, jafnvel þótt vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur skrimti enn um sinn. Kraftaverkin munu vísast láta á sér standa.“