Fréttir

Mögulega ekki eins virk

By Sigrún Erna Geirsdóttir

January 11, 2015

Rannsóknir erlendis á einum stofni inflúensunnar A(H3N2) sem nú er farinn að láta á sér kræla benda til að bóluefnið muni hugsanlega hafa minni virkni í ár en undanfarin ár.Sóttvarnalæknir vill benda á að aðrir stofnar inflúensunnar A(H1N1) og B munu að öllum líkindum einnig ganga í vetur og eru þeir stofnar einnig í bóluefninu og ekkert sem bendir til að vernd gegn þeim verði minni. Orðrómur um að inflúensan í ár verði skæðari en undanfarin ár hefur ekki verið staðfestur, hvorki hér á landi né erlendis.

Á vef sóttvarnalæknis segir að enn sem komið er sé ekkert vitað hvort virkni flensusprautunnar sé minni en áður og sé eingöngu um vangaveltur að ræða. Þekking á raunveruleg virkni fáist eingöngu með því að kanna hversu stór hluti bólusettra einstaklinga mun sýkjast en það verður ekki vitað fyrr en inflúensan hefur geisað í nokkurn tíma.  Þrátt fyrir ofangreindar vangaveltur sé ljóst að bólusetning sé besta leiðin til að koma í veg fyrir inflúensu þó árangurinn sé breytilegur á milli ára. Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma séu því áfram hvattir til að láta bólusetja sig gegn inflúensunni.

Sjá frétt á vef Sóttvarnalæknis.