Það er kostur þegar fólk þakkar velgjörðarfólki sínu fyrir. Leiðari Moggans í dag er dæmi um þessa kurteisi. Sem kunnugt er borga auðug sjávarútvegsfyrirtæki ógrynni fjár til að halda Mogganum á floti.
Tilgangur er öllum ljós. Mogginn á berjast gegn breytingum á kvótakerfinu, stjórnarskránni og aðild að Evrópusambandinu. Allt þetta hefur tekist. Taflið gengur upp en kostar mikið. Leiðarinn endar svona:
„Meginverkefnið sem snýr að íslenskum sjávarútvegi hlýtur að vera að hann skili áfram miklum ábata inn í íslenskt þjóðfélag. Það verður ekki gert með því að veikja íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem keppa á erlendum mörkuðum við erlenda risa. Þvert á móti þarf að gera íslensku fyrirtækjunum kleift að vaxa og dafna, að halda áfram að fjárfesta í öflugum skipum, vinnslu og þróun afurða, og tryggja að þau geti í krafti stærðar og styrks sinnt markaðsstarfi erlendis. Ekkert af þessu er sjálfgefið og árangur íslensks sjávarútvegs í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum batnar ekki ef sífellt er alið á misskilningi og tortryggni og dregið úr festu og fyrirsjáanleika í greininni.“