Mogginn og Davíð virðast ekki í jafnvægi. Það sést á skemmtilegan hátt í Staksteinum dagsins. Skoðum aðeins:
„Hlutabréfamarkaðurinn íslenski tók nokkuð skarpa dýfu í gærmorgun, fyrsta dag viðskipta eftir að Morgunblaðið birti skoðanakönnun þar sem vinstrisveifla var greinileg og ríkisstjórnin hafði misst meirihluta sinn. Hægt er að halda því fram að dýfan sé að hluta til vegna áhrifa frá erlendum mörkuðum, en lækkunin er þó mun meiri hér en á mörkuðum nágrannalandanna og erfitt að verjast þeirri hugsun að fjárfestar óttist vinstristjórn.“
Meira lifandis bullið. Verð hlutabréfa í Kauphöllinni hækkað um 1.500 milljarða frá því að Covid kom. Allir hljóta að sjá að svo mikil hækkun á svo erfiðum tíma gæti ekki staðist. Loft.
„Raunar hefur glitt í vinstristjórn fyrr og segja má að megnið af þessum mánuði hafi íslenski markaðurinn lækkað umtalsvert og verður óvissa vegna kosninganna að teljast líkleg skýring,“ skrifar ritstjórinn í Móanum.
Hann grípur í hálmstrá: „Þetta er skiljanlegt því að augljóst má vera að nái vinstriflokkarnir saman um stjórnarmyndun verði afleiðingarnar meiri lausatök í ríkisfjármálum, aukin skuldasöfnun og aukin skattheimta.“
Þetta hefur heyrst áður. Næst kemur annað: „Seðlabankinn hefur gefið það skýrt til kynna að aukin lausatök í fjármálum ríkisins muni ýta undir vaxtahækkanir, enda væru þau viðbrögð óhjákvæmileg.“ Á mannamáli segir þarna að Seðlabankinn ætli að taka þátt í kosningaáróðri.