Eflingarfólk fær smáádrepu í leiðara Moggans venju samkvæmt. Samt ósköp auma.
Morgunblaðið spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin hefði um helgina rætt um aðgerðir af hennar hálfu gegn boðuðum verkföllum Eflingar og verkbanni SA. Ráðherrann svaraði á þá leið, að því miður hefðu slík inngrip gerst of oft og bætti við: „En við erum ekki komin á þann stað enn þá.“
„Þetta svar er rétt, svo langt sem það nær. En nú er sú staða uppi að félög sem taka til um 90% starfsmanna á almennum vinnumarkaði hafa samþykkt þá samninga sem gerðir hafa verið til aðeins eins árs. Þeir horfðu til hinnar almennu stöðu þegar að fyrirtækin eru að reyna að feta sig út úr óvenjulegum og erfiðum tíma, sem var þeim mjög mörgum verulega óhagfelldur. Það var aðeins eitt verkalýðsfélag sem krafðist þess að fá meira í sinn hlut en allir aðrir,“ segir Davíð og vill ekki sjá að sett verði lög á verkfalli Eflingar. Það er áherslubreyting. Allt gott með það.
„Það er fráleitt að krefjast þess að ríkisstjórnin blandi sér í þetta sólóspil Eflingar. Engin rök standa til þess. Það væri uppskrift af nýju uppnámi á vinnumarkaði. Efling lýtur engum þeim lögmálum sem réttlæta sérstaka umbun umfram þau félögum sem hafa fyrir löngu samið. Slíkt væri að auki afleitt fordæmi. Aðferðirnar sem þeir nota eru að beita verkföllum að örfáum fyrirtækjum og lama um leið starfsemi sem tekur til margfalt fleiri og hafa ekkert með Eflingu að gera. Fjöldi fyrirtækja fá þar með engar tekjur þótt engu verkfalli sé beint að þeim! Minnir framgangan því fremur á skemmdarverk en hefðbundið verkfall, þegar slík fyrirtæki þurfa að loka eða skera niður sína starfsemi.“
Trúr málstaðnum skrifar Davíð: „Þess vegna neyddist SA til að leggja á verkbann, sem er sjaldgæf aðferð, sem samtökin forðast í lengstu lög.“