Leiðara Moggans er ætlað að draga úr trúverðugleika lögreglunnar. Allt til að reyna lagfæra framgöngu Bjarna Benediktssonar sem braut sóttvarnarreglur á kenderíi á Þorláksmessu.
Hér eru sýnishorn úr leiðara Moggans í dag:
„Tilgangur dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar augljós, að koma fjármálaráðherra í vandræði, sama fjármálaráðherra og skömmu áður hafði staðið í ströngu við gerð kjarasamninga við lögreglu.“ Endemis bull er þetta. Þetta er ekkert flókið. Bjarni var við víndrykkju við aðstæður sem hann, ásamt öðrum ráðherrum, hafði lagt blátt bann við. Sem betur fer var þjóðin upplýst um framferði Bjarna Benediktssonar.
„Það er ömurlegt að tveir lögregluþjónar hafi látið afvegaleiðast sakir pólitískrar meinbægni, en það er alltaf misjafn sauður í mörgu fé,“ segir í leiðaranum. Til hvers ætlast Mogginn? Gera út af við sendiboðana?
„Dómsmálaráðherra sagði í gær að það væri mjög alvarlegt að eiga við gögn með þessum hætti og tók alls ekki of sterkt til orða,“ segir í leiðaranum. Áslaugu Örnu væri nær að upplýsa um dagskipunina sem hún gaf lögreglustjóranum klukkan fimm á aðfangadag jóla. Það við viljum við vita.
„Og hiki lögregla ekki við að reyna að klekkja á ráðherrum með slíkum ráðum, hvaða tryggingar hefur almenningur fyrir því að hún beiti ekki brögðum við hvern sem er annan?“ Lögreglan var ekki að reyna að klekkja á Bjarna. Lögreglan sá hann, þann sem setti reglurnar, á kenderíi með fjölda fólks, þrátt fyrir sóttvarnarreglur.
Jæja, mbl.is leitaði til Fjölnis Sæmundssonar, formanns Landssambands lögreglumanna. Fjölnir segir lögreglumenn vera að íhuga stöðu sína. Sambandið hefur leitað til lögmanns og möguleiki er á því að gefin verði út kvörtun til Persónuverndar. Von er á frekari yfirlýsingu frá Landssambandi lögreglumanna á mánudaginn.
„Fjölnir telur að ástæða sé til að kvarta til Persónuverndar yfir því hvernig farið hefur verið með upptökur úr búkmyndavélum lögregluþjónanna tveggja sem voru kallaðir á vettvang vegna sóttvarnarbrots í Ásmundarsal.
Hann bendir á að þarna sé til meðferðar persónulegt samtal milli tveggja lögreglumanna sem beinist ekki að neinum á staðnum. Lögreglumenn séu með búkmyndavélar öryggis síns vegna og borgaranna sem megi svo nota í rannsóknum sakamála,“ segir Fjölnir formaður.
„Mér finnst mjög óeðlilegt að þessi nefnd sé að skoða upptökur úr þessum búkmyndavélum og hlusta á það hvað fer lögreglumönnum á milli,“ segir Fjölnir á mbl.is og bætir við að freklega sé gengið á persónufrelsi þessara lögreglumanna.
„Þá þykir honum enn alvarlegra að persónulegt samtal milli tveggja manna sé nú komið í fjölmiðla. Hann grunar ekki að nefndin hafi sjálf leið gögnunum en með einhverjum hætti komst skýrslan í hendur fjölmiðla.
Ekki gat Fjölnir séð að neitt væri sett út á eiginleg störf þessara lögreglumanna á vettvangi. Þeir hafi talið að á staðnum ætti sér stað sóttvarnarbrot og í kjölfarið rýmt húsið,“ segir í fréttinni.
„Hvort þeir hafi svo persónulegar skoðanir eins og aðrir borgarar, mér finnst það bara vera þeirra réttur.“ Hann ítrekar jafnframt að lögreglumennirnir hafi staðið til hliðar og ekki látið hin umdeildu ummæli falla út á við heldur aðeins sín á milli.
Fjölnir veltir fyrir sér hve langt sé eðlilegt fyrir eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu að ganga í að hafa eftirlit með lögreglumönnum. Þarna sé hún farin að hafa eftirlit með hugsunum þeirra, að þeir hugsi hlutlaust.
„Ég fer oft á vettvang með myndavél og svo hreinlega gleymi ég að slökkva á myndavélinni. Þá siturðu bara í lögreglubílnum með félaga þínum og ert að tala um fjölskylduna eða börnin þín og það er allt í upptöku. Það fer líka upptaka af stað í lögreglubílum um leið og við setjum bláu ljósin í gang,“ segir Fjölnir. Lögreglumenn eru að hans mati undir miklu eftirliti og því spyr hann hvort það sé ekki rétt að takmarka nýtingu upptaka við þau tilvik þar sem þær snúa raunverulega að einhverjum málum,“ segir í fínni frétt á mbl.is.