Leiðari Moggans er hrein dásemd. Þar er málþóf Miðflokksins varið. Og það af krafti. Um leið er sett út á alla hina flokkana, þar á meðal Sjálfstæðisflokks. Leiðarinn endar svona:
„Það er dapurlegt þegar jafn mörg brýn verkefni í samgöngumálum og raun ber vitni liggja fyrir um allt land, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, skuli þingið nú vinna að því að sóa tugum milljarða, eða jafnvel enn hærri fjárhæðum, í framkvæmd sem í besta falli gerir ekkert gagn en verður að líkindum til að tefja umferð á svæðinu enn frekar.“
Nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, kemur ítrekað fram í leiðaranum. Hér er eitt dæmi:
„Sigmundur Davíð sagði enn fremur að líkur væru á að framkvæmdir við Borgarlínuna færu fram úr áætlun og að auki lægi ekkert fyrir um áætlaðan rekstrarkostnað. Þetta er vitaskuld stórkostlegur galli á áformunum, ekki síst í ljósi þess að búið er í tæpan áratug að setja heilan milljarð aukalega á ári í rekstur strætisvagnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu án þess að það hafi skilað nokkrum árangri. Hversu háa fjárhæð þarf til viðbótar á hverju ári þegar þunglamalegu og ofvöxnu Borgarlínukerfinu verður bætt við?“