Þórdís K.R. Gylfadóttir, varaformaður flokksins og utanríkisráðherra, virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Davíð Oddssyni og hans fólki. Staksteinar dagsins eru brúkaðir til undirstrika hversu lágt Þórdís er metin af þeim Moggamönnum. Lesum:
„Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kvaddi sér hljóðs á 78. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og las yfir heimsbyggðinni á þann hátt að þjóðir heims lögðu ugglaust við hlustir.
Í ræðunni var víða við komið, en meðal annars hvatti ráðherra til umbóta í umgjörð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ekki var farið nánar út í við hvað var átt (Ísland hefur ekki sóst aftur eftir sæti í ráðinu) en líkast til er markmiðið að stugga við Rússum þaðan, hugsanlega að fjölga fastafulltrúum en afnema neitunarvald þeirra.
Mestum tíðindum sætti þó herhvöt utanríkisráðherra gegn hættum gervigreindar. Af orðum Þórdísar Kolbrúnar var að skilja að einungis fjölþætt milliríkjasamstarf geti forðað mannkyni frá tortímingu af völdum gervigreindar, líkt og Skynet sé á næsta leiti. „Mannréttindi eru fyrir manneskjur.“
Í orðum um jafnrétti og leið Íslands frá örbirgð til allsnægta var kennedískur hljómur: „Við njótum ekki kynjajafnréttis á Íslandi vegna þess að við höfum efni á slíkum munaði. Það er kynjajafnréttið sem styrkti okkur.“
Mestu tíðindin felast þó að líkindum í nýjasta kafla fundarhamrasögu utanríkisþjónustunnar, sem reglulega gefur SÞ (og fleiri alþjóðastofnunum) tálgaða hamra að fyrirmynd Ásmundar Sveinssonar. Gallinn er sá að þeir fundarhamrar eru óvenjubrothættir svo Íslendingar halda áfram að tálga þá með sama lagi og gefa. Það er lifandi dæmisaga.“
Er þetta dæmigerð karlremba? Ósmekklegir eru Staksteinar dagsins. Sem og oft áður.