Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokks, sendi grein skammagrein um Sjálfstæðisflokkinn, til birtingar í Mogganum. Ritstjórn Moggans ákvað að geyma greinina fram yfir kosningar og birtir hana í dag. Að venju er grein Vilhjálms skemmtileg aflestrar:
„Þegar þessi dagur er að kveldi kominn lýkur minni þjónustu við þingræðið. Þjónusta mín við þingræðið hófst þann 27. apríl 2013 með fullu umboði fyrir kjördæmi mitt, Suðvesturkjördæmi. Það umboð stóð í fjögur ár og sex mánuði. Frá 27. október 2017 hef ég haft kjörbréf varaþingmanns í kjördæmi mínu. Fjórum sinnum reyndi á kjörbréfið.
Þrisvar hafnaði ég þingsetu sem varaþingmaður. Einu sinni sat ég sem varaþingmaður í eina viku.
Lýðræðisveisla
Ég fór þrisvar í gegnum lýðræðisveislu, sem kölluð er prófkjör. Tvisvar vegnaði mér vel.
Hið fyrsta sinni leitaði formaður uppstillingarnefndar Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Jónas Guðmundsson lögmaður, allra leiða til að færa mig af listanum, ellegar að færa mig úr því sæti sem lýðræðisveislan skilaði. Það gekk ekki eftir! Einhverjum til mæðu!
Næsta sinni heppnaðist þessum sama formanni uppstillingarnefndar að færa mig niður um sæti. Það sæti á lista gaf þingsæti því sinni.
Því sinni lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins þessa tilfærslu mikla snilli með mikilli ánægju.
Núverandi ritari flokksins taldi þessa tilfærslu mikla snilli með mikilli ánægju.
Sá er hlaut kosningu í þriðja sæti lýsti einnig ánægju með snillina.
Runk með úrslit
Runkið með listann skipti þessa menn ekki máli, þeir höfðu loforð um það. En þeir litu betur út í augum Landssambands sjálfstæðiskvenna. Þær konur fengu mikla upphefð.
Sú er hlaut upphefðina þakkaði aldrei fyrir sig, fyrir að halda frið. Þegar sá, er var niðurlægður, var fallinn af Alþingi í snemmbúnum kosningum hringdi hún og bullaði og lét eins og fífl.
Síðar flaðraði hún upp um mig þegar ég varð á vegi hennar, eins og hundstík, og sagði innihaldslaust bull: „Gott að sjá þig.“
Hið þriðja sinni
Hið þriðja sinni í lýðræðisveislu vegnaði mér ekki vel, enda var ég ekki á „recepti“ þeirra sex efstu í prófkjörinu á liðnu sumri. Talinn hættulegur!
Þegar einhverjir fulltrúar í uppstillingarnefnd vildu leiðrétta hlut Vilhjálms Bjarnasonar sagði ein meginfraukan úr Mosfellsbæ: „Þessi Vilhjálmur Bjarnason skiptir engu máli.“
Niðurlæging
Eftir niðurlægingu í prófkjöri 2016 voru mér gefin loforð, sem voru svikin og einskis verð lygi.
Stolt
Ég er stoltur af þingsetu minni. Ekki vegna fjölda mála sem mér tókst að nudda í gegn. Mér tókst aðeins að fá eitt mál samþykkt, með dyggum stuðningi Vinstri grænna. Annað mál hefði ég getað fengið í gegn með aðstoð núverandi dómsmálaráðherra, ef ég styddi áfengi í búðir.
Miklu fremur er stolt mitt vegna áhrifa minna við að leysa óleysanlega þraut þrotabúa hinna föllnu banka.
Ég geng uppréttur og stoltur frá borði þrátt fyrir lygi, niðurlægingu og svik.
Ég leitaðist við að vera ég sjálfur. Þeir, sem ég átti samskipti við, voru þeir sjálfir og sviku mig og niðurlægðu.
Göfugt hlutverk
Þjónusta við þingræðið er göfugt hlutverk. Ég þjónaði þingræðinu með bestu samvisku. Betur gat ég ekki gert og geri aðrir betur. Ég þakka þeim sem veittu mér umboð til þessarar þjónustu.
Þátttöku minni í stjórnmálum er lokið. Svo býð ég minni elskulegu þjóð dús!“