Stjórnmál
„Undanfarna daga hafa birst viðtalsbrot við Ölmu Möller landlækni, þar sem hún fer svo vítt og breitt yfir sviðið að lesendum fyrirgæfist að ímynda sér að hún væri á leiðinni í framboð,“ segir í Staksteinum Moggans í dag.
Mogginn hefur áhyggjur, með réttu eða röngu, að hugsanlegu þingframboði Ölmu landlæknis. Sem enginn hefur pælt í nema ólundinn í Hádegismóum.
„En kannski er það þannig, það styttist í næstu þingkosningar, en sagt er að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar leiti dyrum og dyngjum að frambjóðendum, sér og Nýju Samfylkingunni samboðnum.
Landlæknir fjallar t.d. um manneklu í heilbrigðiskerfinu, sem eðlilegt er að hann hafi áhyggjur af. Eins „að hér ríki ójöfnuður í heilsu“, en „ef ekkert sé að gert muni sífellt fleiri börn alast upp við ójöfnuð“, og greinilegt að hún vill skakka leikinn.“
Fyrst við erum byrjuð að skemmta okkur yfir ólund Staksteina er best að halda áfram, allt til loka:
„Alma kveðst líka hafa „áhyggjur af aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Áhyggjurnar snúist fyrst og fremst að því að ef við sofnum á verðinum geti aukin útvistun heilbrigðisþjónustu leitt til meiri ójöfnuðar á Íslandi.“
Nú má halda því fram að það sé einmitt ríkisvæðing heilbrigðiskerfisins, sem valdi mestu um hvað það er bæði dýrt og óskilvirkt. En það er rammpólitísk deila, sem hæpið er að landlæknir eigi að blanda sér í, þótt augljóst sé að honum er jafnaðarstefnan hugleikin. Alma ætti þá frekar að kasta af sér sloppnum og fara kinnroðalaust í framboð. En hún getur ekki bæði verið embættismaður og frambjóðandi.“
Það er vont þegar fólk sér andskotann í hverju horni.