„Frestun á hvalveiðum í sumar hefur vakið kurr og gamlar deilur. Það er ekkert að því að ræða þau mál, þar sem á vegast gild sjónarmið með og á móti, þó flestir viti að annað bjó að baki hjá ráðherranum. En það má efast um aðferðir Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem ógna lífsviðurværi 120 manns og baka skattgreiðendum skaðabótaskyldu, allt vegna stæla,“ segir í leiðara Moggans í dag. „Allt vegna stæla.“
„Hún kvaðst reisa ákvörðun sína á áliti fagráðs um velferð dýra, en það er lögum samkvæmt aðeins ráðgjafarnefnd gagnvart Matvælastofnun (MAST) og hefur engu hlutverki að gegna við ráðherra eða reglusetningu hans.
Svandís hefur ekki viljað svara eða birta hvort fyrir liggi lögfræðilegt mat innan matvælaráðuneytisins um frestun hvalveiða; hvort ákvörðunin falli að meginreglum um lögmæti og meðalhóf,“ segir Mogginn.
Mogginn upplýsir: „Ráðherra ber skýr skylda skv. 20. gr. laga um Stjórnarráð Íslands til að fá slíka ráðgjöf frá embættismönnum sínum og þeir hafa sjálfstæða skyldu til að veita hana, jafnvel óumbeðið. Minnsta, matskennda vanræksla á því er ekki án afleiðinga eins og dæmin sanna.“
Mogginn er í ham. Hráskinnsleikur ráðherra segir svo í leiðaranum:
„Rannsóknarskylda ráðherra er rík, en af ákvörðun Svandísar um að fresta hvalveiðum til að rannsaka málið í sumar blasir við sú þversagnakennda niðurstaða að rannsóknarskyldu var ekki fullnægt fyrir töku ákvörðunarinnar um að rækja hana loksins.
Með þessum hráskinnsleik er ráðherrann ekki aðeins að taka pólitíska áhættu, því hann kann að setja eigið embætti í uppnám, sem gæti lokið með því að Svandís þyrfti að „stíga til hliðar“ á sömu forsendum og dómsmálaráðherra mátti þola 2019.“
Mogginn lætur að því liggja að ráðherraferill Svandísar kunni að vera á enda. Úr þessu má með góðum vilja segja að hefnda verði leitað. Nema þetta sér dagskipun frá formanninum fyrrverandi. Ef svo er, gegnir Bjarni?