Mogginn tekur fullan þátt í varnarleik atvinnurekenda gegn breyttum viðhorfum í verkalýðshreyfingunni. Og svíst einskis. Hér er dæmi dagsins þar um.
Fyrirsögn fréttar í Mogga dagsins er svona: Hagnaður Íslandshótela dróst saman. Og undirfyrirsögn er svona: Launakostnaður jókst verulega í fyrra. Þetta er bara ekki rétt. Og það veit Mogginn, en það hentar greinilega að gleyma raunveruleikanum og flagga lyginni. Reyndar er ein óvissa í þessu öllu. Það er hversu teygjanlegt hugtakið „verulega“ er.
„Íslandshótel reka sautján hótel um land allt, þar af sex í Reykjavík. Á árinu 2017 voru 775 starfsmenn hjá Íslandshótelum, sé miðað við heilsársstörf, en 650 árið 2016. Laun og launatengd gjöld námu 4,7 milljörðum króna en voru 3,8 milljarðar árið á undan,“ segir í fréttinni einstöku.
Við nánari skoðun sést að kostnaður af hverjum starfsmanni hefur aukist rétt um þrjú prósent á einu ári. Það er þá verulegt að mati varnarliðsins í Hádegismóum. Hvað ætli launahækkanir þeirra hæst settu séu stór hluti af hækkuninni.
Við Davíð og hin á Mogganum er því hægt að segja, þið verðið að gera betur. Þetta skot er svo langt frá markinu.
Sigurjón M. Egilsson.