Guðrún Dís Barðardóttir, 19 ára, fullyrðir að móðir henanr hafi beitt sig grófu andlegu ofbeldi um talsvert skeið. Hegðun móðurinn breyttist til muna eftir að hún byrjaði að drekka fyrir sjö árum en saman höfðu mæðgurnar neytt fíkniefna saman þegar Guðrún var 16 ára.
Guðrún Dís er nýjasti gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur. Veröldin umturnaðist hjá henni þegar móðir Guðrúnar byrjaði að drekka og um tíma voru þær heimilislausar.
„Mamma mín var æðisleg […] Ég efaðist aldrei um að ég væri elskuð. En það breyttist allt eftir að hún byrjaði að drekka. Við misstum húsnæðið og enduðum á götunni. Við vorum þá að flakka á milli, annað hvort milli hótela, þegar hún fékk lánaðan pening frá vinum eða fjölskyldu, eða bjuggum í hjólhýsum í smástund. Ég, bróðir minn og mamma mín,“ segir Guðrún Dís.
„Hún var í fæðingarorlofi með yngsta bróður minn […] og breyttist í allt aðra manneskju. Þetta var ekki mamma mín lengur. Hún var uppi í rúmi flesta daga ef hún var ekki að drekka, maður sá hana kannski ekki í marga daga. Svo endaði þetta þannig að hún fór í meðferð.“
Guðrún Dís lokaði á móður sína fyrir um ári síðan. „Hún eyddi næstum 6 mánuðum í að beita mig svo grófu andlegu ofbeldi í gegnum netið að ég er nýhætt að verða hrædd þegar ég heyri símann minn titra. Alvarlegasta andlega ofbeldið byrjaði síðasta sumar, í apríl/maí í fyrra. Samskiptin okkar voru mjög óheilbrigð, hafa alltaf verið það. Ég var meira vinkona en dóttir,“ segir hún.
„Ég lokaði loksins á hana fyrir ári síðan, sagði bara stopp því hún var að biðja mig að lána sér pening, og ég sagði nei því ég hafði ekki efni á því. Og hún sagði að ég gæti það alveg og að ég væri að ljúga.“