- Advertisement -

MMR: Miðflokkur rís, Píratar hopa

Gunnar Smári skrifar:

Píratar voru næst stærsti flokkurinn fyrir fáeinum mánuðum í könnun MMR en eru nú númer sjö í röðinni.

Í fyrsta skipti um langan tíma má merkja marktæka sveiflu í fylgi flokka hjá MMR, en undanfarin misseri hafa breytingar milli mánaða verið innan skekkjumarka. En nú er hægt að segja að Miðflokkurinn sé að bæta vel við sig og Flokkur fólksins og Sósíalistar einhverju. Á sama tíma eru Píratar að missa töluvert og VG þó nokkuð. Píratar voru næst stærsti flokkurinn fyrir fáeinum mánuðum í könnun MMR en eru nú númer sjö í röðinni. Miðflokkurinn er hins vegar orðinn næst stærsti flokkurinn og stærstur stjórnarandstöðuflokka.

Þetta er ekki góð könnun fyrir ríkisstjórnarflokkanna.

Þetta er ekki góð könnun fyrir ríkisstjórnarflokkanna. Flokkarnir fengu 52,9% atkvæða í kosningum en mælast nú með 40,2%; fengu 35 þingmenn en hafa nú bara efni á 28. Ríkisstjórnin er kolfallin. Framsókn er nálægt kjörfylgi sínu, sem var sögulega arfaslakt, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað 5,5 prósentustigum og VG 6,6.

Þrátt fyrir fylgislitla ríkisstjórn vex hin frjálslynda miðja ekki mikið; Samfylking, Píratar og Viðreisn. Þessir flokkar fengu samanlagt 28,0% í kosningunum en mælast nú með 33,2%. Þeir fengu 17 þingmenn en eiga nú fyrir 22. Viðreisn bætir við sig 4,3 prósentustigum, Samfylkingin 2,0 en Píratar standa í stað, tapa örlitlu og hafa ekki mælst minni hjá MMR síðan sumarið 2014.

Hið nýja hægri, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, mælast nú með 20,4% fylgi á móti 17,8% í kosningum; fengu þá 11 þingmenn en ættu fyrir 13 samkvæmt þessari könnun.

Sósíalistar mælast nú með 3,1% fylgi en buðu ekki fram síðast, hafa dregið til sín meira fylgi en nýhægrið, sem verður að teljast fínt af flokki utan þings.

Það eru ekki margar ríkisstjórnir í þessum kortum; kannski helst fjórflokkurinn samanlagður (DBSV) með 37 þingmenn eða þá núverandi stjórn plús Miðflokkurinn með 38 þingmenn.

Það er varla nokkur sem fagnar þessari könnun aðrir en Miðflokksmenn.

Það er varla nokkur sem fagnar þessari könnun aðrir en Miðflokksmenn, sem eru með pálmann í höndunum tæpu ári eftir Klausturmál. Viðreisn er líka að ná vopnum sínum eftir ósigur í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokksfólks hlýtur að fá hroll yfir að flokkurinn mælist nú undir 20% þriðja mánuðinn í röð, skelfileg staða fyrir flokk sem áður var fúll ef hann mældist ekki yfir 40%. Vg er að festast á svipuðum slóðum og flokkurinn var á þar síðasta kjörtímabili, um 10%. En þessi könnun er þó verst fyrir Pírata, sem mælast með aðeins 8,8%, minna en fokkurinn hefur séð í meira en fimm ár. Fylgi um og yfir 30% í könnunum er nú aðeins minningin ein. Vilji þingflokksins til að sýna sig stjórnhæfan, ósköp venjulegan þingflokk, hefur kannski skilað betri tengslum við þingflokka Samfylkingar og Viðreisnar en hefur skorað hátt hjá kjósendum.

  • Annars myndi þingheimur skiptast svona ef þetta yrðu úrslit kosninga (innan sviga breyting frá kosningum 2017):
  • Sjálfstæðisflokkur: 14 (–2)
  • Miðflokkur: 10 (+3)
  • Samfylkingin: 9 (+2)
  • Viðreisn: 7 (+3)
  • VG 7 (–4)
  • Framsókn 7 (–1)
  • Píratar 6 (+/–0)
  • Flokkur fólksins 3 (–1)

Ef Sósíalistar næði inn á þing (sem ég tel næsta víst) myndu þeir taka fyrst þingmenn af Sjálfstæðisflokki, Pírötum og Framsókn.




Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: