Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra, sagði á Sprengisandi á sunnudag, að mjólkurkvóti hafi mikil áhrif á rekstur búanna þar sem hann sé drjúgur hluti framleiðslukostnaðar. „Ef hann væri ekki væri mjólkurframleiðsla hér samkeppnisfær við það sem gerist annarsstaðar,“ sagði landbúnaðarráðherra.
Ráðherra segir unnið að því að auka mjólkurframleiðslu vegna aukinnar eftirspurnar. Bæði innanlands og utan. Kvóti í mjólk var settur á til að draga úr framleiðslu, sökum þess að áður var framleitt umfram eftirspurn.
Nú er undirbúningur hafin að nýjum búvörusamningi. Ráðherra segir að spyrja verði, vegna breyttra aðstæðna, að spyrja hvort skynsamlegt sé að breyta kvótakerfinu eða afnema jafnvel afnema það.
„Þetta verður að vanda mjög vel því ekki ætlum við að koma í bakið á atvinnugreininni eða innlendri framleiðslu.“
Kvótinn er margra ára gamall. Dæmi eru um bændur og fyrirtæki sem hafa keypt mikinn kvóta. Kaupfélag Skagfirðinga er í þeim hópi. Aðrir gera sér vonir um að geta selt kvóta bregði þeir búi, hafa litið á kvótann sem nokkurskonar lífeyri.
„Þess vegna þarf að vanda þetta mjög vel. Það er rétt að það eru ýmiskonar skuldbindingar vegna kvótans og einhverjir hafa talið sig geta selt kvóta vilji þeir hætta,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann segist vonast til að allir, bændur, framleiðendur og verslunin leggist á eitt svo unnt verði að nýta sem best þau mörgu tækifæri sem eru að skapast.