Eiríkur Rögnvaldsson finnur að, sem og sumir aðrir, að forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, hafi ekki viðurkennt að mistök hafi verið gerð sem leiddu til þess að sóttvarnarskyldan féll fyrir dómi.
Eiríkur skrifaði:
„Ef reglugerðin hefur ekki lagastoð hafa annaðhvort verið gerð mistök við setningu laganna eða reglugerðarinnar – og einhver gerði þessi mistök, þau gerðu sig ekki sjálf. Hvernig stendur á því að íslenskir stjórnmálamenn (eða kannski Íslendingar yfirleitt) geta aldrei viðurkennt að hafa gert mistök? Það er ekkert skammarlegt að gera mistök, en stjórnmálamenn virðast halda að svo sé – halda að þeir fyrirgeri trúverðugleik sínum ef þeir viðurkenna mistökin. En það er þveröfugt – ég vil miklu heldur stjórnmálamenn sem gera mistök og viðurkenna það en stjórnmálamenn sem gera mistök og viðurkenna það ekki. (Auðvitað væri best að hafa stjórnmálamenn sem gera ekki mistök, en það er óraunhæft.) Að því sögðu tek ég fram að ég styð reglugerðina sem um er að ræða og þess vegna finnst mér þessi mistök vond – og ekki síður það að ekki skuli gengist við þeim.“