Fréttir

Misstum Pawel og Nichole en fengum Miðflokkinn – „Það voru ekki góð býtti“

Andrés Ingi Jónsson segir margbreytileika samfélagsins ekki endurspeglast í þingsal. „Til framtíðar þurfum við opnari landamæri og sérstaklega þurfum við reglur sem auðvelda fólki utan EES-svæðisins að setjast hér að.“

By Miðjan

December 07, 2018

„Innflytjendur eru hryggjarstykkið í mörgum undirstöðuatvinnugreinanna. Hér væri t.d. varla ferðaþjónustan án þessa fólks,“ sagði Andrés Jónsson í ræðustól Alþingis.

„Innflytjendur vinna jafnframt mikið af ósýnilegu störfunum sem halda samfélaginu gangandi. Ég nefni bara leikskólana sem eru reknir oft á konum á lágum launum af erlendu bergi brotnum eða fólkið sem þrífur spítalana fyrir allt of lág laun,“ sagði hann.

„Því miður er þessi margbreytileiki samfélagsins ekki endurspeglaður í þingsal. Fyrir ári síðan snerust pólitískir vindar og við misstum Pawel og Nichole, fengum í staðinn Miðflokkinn. Það voru ekki góð býtti,“ sagði Andrés.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki sem stólar á alþjóðakerfið. Til framtíðar þurfum við opnari landamæri og sérstaklega þurfum við reglur sem auðvelda fólki utan EES-svæðisins að setjast hér að. Þegar Ísland varð fullvalda bjuggu hér 90.000 manns. Í byrjun þessarar aldar vorum við rétt um 280.000. Núna erum við 350.000 en það er ekki innfæddum Íslendingum að þakka því að náttúruleg fjölgun er búin að dragast svo mikið saman að við stólum á aðflutta íbúa landsins til að halda áfram að fjölga. Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar verðum við ekki nema 436.000 eftir 50 ár. Við þurfum að vera fleiri. Við þurfum jafnvel stefnu um hvernig við verðum milljón til þess að Ísland verði fjölmennara, fjölbreyttara og betra.“