Misnota heimildur um fjáraukalög
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, sagði í þingræðu:
„Fjáraukalögin eiga að vera síðasta úrræðið, ef svo má segja, og jafnvel þó að þetta úrræði sé fyrir hendi skiptir máli að skilyrði um tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt atvik verða að vera uppfyllt.“
Þá er spurt, er frjálslega með þetta farið, misnota ráðherrar heimildir og eyða peningum án heimildar og redda sér síðan með því að setja fjárveitingarnar í fjáraukalög?
„Margt í fjáraukalögunum á ekki heima þar og hefði átt að vera í fjárlögum,“ sagði Ágúst Ólafur, í samtali við Miðjuna og benti til dæmis á fyrirsjáanlegan hallarekstur Landspítalans, sem og fjárveitingar til Þjóðkirkjunnar og fleira.
Hann sagði rétt að farið sé í kringum lögin með þessu háttalagi. Í fjáraukalögum er margt sem var fyrirséð og á ekki heima þar.
„Það verður gaman að sjá hvernig kostnaður vegna rannsóknar á Samherjamálinu verður bókaður. Allir vita að á þessu ári fellur til mikill kostnaður vegna rannsóknarinnar. Ekki var gert ráð fyrir honum í fjárlögum þessa árs.“
Ágúst Ólafur segir áætlanagerð ríkisstjórnarinnar vera í molum og nauðsyn sé að losna undan hagstjórn Sjálfstæðisflokksins. Sem dæmi hafi verið gert ráð fyrir 15 milljarða afgangi af fjárlögum 2019 en hallinn verði 29 milljarðar. Skekkjan upp á 44 milljarða.
Í ræðu sinni sagði Ágúst Ólafur einnig:
„Hér er verið að setja fjármuni í breytta gæslu við Stjórnarráðið. Er það ófyrirséð? Ég ætla ekki að fullyrða það en velti því fyrir mér. Það er verið að bæta peningum í ljósleiðara um Mjóafjörð og annað slíkt. Er það ófyrirséð? Það er verið að setja pening til að stytta málsmeðferðartíma hjá Útlendingastofnun. Við getum alveg verið sammála verkefnunum, ég ætla ekkert að gagnrýna verkefnin, en er það ófyrirséð að setja pening í það? Það er verið að setja pening í reglubundnar þjónustukannanir hjá heilsugæslunni. Er það ófyrirséð?“