Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði:
Komið hefur fram í fréttum að einhver fjöldi utankjörfundaratkvæða hafi ekki skilað sér til kjörstjórna við kosningarnar 30. nóvember s.l., þó að talið sé að þeim hafi verið skilað til sveitarstjórna í því skyni að þeim yrði komið tímanlega til viðkomandi kjörstjórnar.
Í XXI. kafla kosningalaga nr. 112/1921 er fjallað um kosningakærur. Í 1. mgr 127. gr. er kveðið á um að Alþingi skeri úr hvort þingmenn séu löglega kosnir. Í b. lið 3. mgr. 132. gr. segir, að ógilda skuli kosninguna ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem líklegt er að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar. Í 2. mgr 127. gr. er kærufrestur kjósenda 7 dagar frá því að kosningaúrslit voru auglýst.
Í 114. gr. laganna segir síðan að sé ágreiningur milli umboðsmanna stjórnmálasamtaka sem þátt hafi tekið í alþingiskosningum og landskjörstjórnar um úrslit kosninga og úthlutun þingsæta, eigi umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Landskjörstjórn skuli þá leggja fyrir Alþingi í þingbyrjun eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og gögn þau sem ágreiningur kann að vera um ásamt rökstuddri umsögn sinni, sbr. 2. mgr. 132. gr.
Ekki er í lögunum kveðið á um kærufrest stjórnmálasamtaka sem hafa tekið þátt í alþingiskosningum. Má væntanlega draga þá ályktun af þessu að kærufrestur þeirra sé þar til Alþingi hefur skorið úr um lögmæti kosningar þingmanna.
Nú hefur Alþingi ekki ennþá komið saman eftir alþingiskosningarnar 30. nóvember s.l. Ekki verður því betur séð en að framboðsaðilar geti ef þeir kjósa ennþá komið á framfæri athugasemdum um að atkvæði sem réttilega voru greidd tímanlega hafi ekki verið talin með öðrum atkvæðum.
Af kosningalögum er ljóst að kærur á úrslitum kosninga geti því aðeins haft áhrif, að lagfæring á göllunum bendi til þess að líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar, sjá b. lið 3. mgr. 132. gr laganna. Telja má að réttur þeirra, sem hafa löglega tekið þátt í kosningum, til þess að atkvæði þeirra séu talin, geti talist til grunnréttinda sem njóti hliðstæðrar verndar og mannréttindi skv. stjórnarskránni.
Ég tel að við þessar aðstæður beri landskjörstjórn að telja þau atkvæði sem ekki voru talin og birta opinberlega upplýsingar sínar um niðurstöðu talningarinnar og senda þær til Alþingis. Þá geta framboðsaðilar tekið afstöðu til þess hvort þeir telji ástæðu til að kæra framkvæmd og úrslit kosninganna. Það væri þá aðeins ef þeir telja að leiðréttingin valdi breytingu á niðurstöðunni. Geri hún það ekki yrði kæra tilgangslaus.
Jón Steinar Gunnlaugsson var formaður yfirkjörstjórnar við alþingiskosningar í Reykjavík 1995-2000.