Leiðari Þar sem skammt er frá síðustu alþingiskosningum ættu að vera sæmilegir möguleikar til að við kjósendur munum enn það sem flokkarnir boðuðu í kosningabaráttunni. Hvernig sem ég hugsa til baka get ég ekki munað að íhaldsflokkarnir þrír, sem mynda núverandi ríkisstjórn, hafi talað mikið um þörfina á að lækka veiðigjöld á útgerðina. Nú er það hinsvegar forgangsverkefni. Er númer eitt í röðinni.
Auðvitað kemur það svo sem ekkert á óvart. En sniðugra hefði verið hefði forystufólk flokkanna sagt hug sinn fyrir kosningar. Það hefði alla vega verið heiðarlegra. Samt er augljóst að slíkt er ekki rætt fyrir kosningar. Gæti hugsanlega fælt kjósendur frá.
Engum dylst hversu Sjálfstæðisflokkurinn er tengdur útgerðinni og ekki síður málgagn flokksins. Óþinglýstur eigandi Framsóknarflokksins á og rekur eina stærstu útgerð landsins og innan Vinstri grænna hefur stuðningur við ofurríka verið þekktur um árabil.
Upphaf göngu nýjustu ríkisstjórnar Íslands sýnir okkur hvert stefnir. Hvaða Íslendingar njóta forgangs og hverjir ekki. Framganga flokkanna sem hafa skapað hið sérstaka íslenska kerfi, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, kemur ekki á óvart. Afstaða flokks forsætisráðherra er hins vegar ráðgáta. Vitað var að flokkur hennar er íhaldsflokkur, en samt á einhvern hátt ólíkur hinum tveimur. En svo er sýnilega ekki.
Sigurjón M. Egilsson.