Minning um Ragga Bjarna eftir Halldór Árna MyndbandTalvarp Af Miðjan Þann 26. febrúar 2020 Síðast uppfært 26. febrúar 2020 Raggi Bjarna kveður stóra sviðið í kvöld.Settist með kaffibolla og hlustaði á Jón Ólafsson að venju í morgun rifja upp nokkrar íslenskar dægurlagaperlur í þætti sínum Sunnudagsmorgunn á Rás 2. Meðal annars nýfundna hljóðblöndun af Söknuði Jóhanns Helgasonar við ljóð Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar í upptökustjórn Magnúsar Kjartanssonar. Þetta lag á alltaf sérstakan sess í huga og hjarta mér, því þegar ég vann i Hljóðrita 1978 var mér falið það ábyrgðarhlutverk að leika þetta ljúfsára lag af segulbandi í yfirfullri Fríkirkjunni í útför Vilhjálms. Ég man enn hvað ég var stressaður því afspilunin varð að hefjast á hárréttu augnabliki. Jón lék líka í morgun áheyrilegt lag eftir meistara Magga Kjartans, lagið Ef, sem heyrist alltof sjaldan, við skemmtilegan öfugmælatexta Halldórs Gunnarssonar Þokkabótarmanns. En fyrsta lagið sem Jón lék í morgun var eftir Valgeir Guðjónsson, flutt af okkar ástsæla söngvara Ragnari Bjarnasyni, sem kveður stóra sviðið akkúrat í kvöld. Á stærsta sviði tónlistar á Íslandi, Eldborgarsal Hörpu. Við sem komin eru af léttasta skeiði eigum langa og góða vegferð með Ragga og eigum öll að ég held minningar sem tengjast þeim lögum sem hann hefur sungið í gegnum áratugina. Þess vegna langar mig að deila hér litlu viðtali sem ég tók við Ragga fyrir nákvæmlega sex árum þegar hann var að undirbúa tónleika á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“ í Mosfellsbæ, en sú hátíð stendur einmitt yfir núna um helgina. Stikluna klippti hress og skemmtilegur nemandi minn í fjölmiðladeild Flensborgarskólans þá, Arnar Daði Arnarsson, af mikilli smekkvísi. Ég fékk leyfi allra hlutaðeigandi listamanna fyrir birtingu myndbandsins á sínum tíma, svo vonandi er í lagi að henda þessu hér út í kosmóið hér eins og sagt er. Myndgæðin eru ekkert sérstaklega mikil á þessari kópíu, en ég nennti ekki að leita að orginal klippingunni á þeim 134 hörðu diskum sem ég er að vinna með núna. Ragga óska ég góðra og gleðiríkra daga í ellinni með þökkum fyrir góða viðkynningu, og Mosfellingum til hamingju með einhverja flottustu bæjarhátíð landsins, sem ég gat því miður ekki sótt í ár.Posted by Halldór Árni Sveinsson on Sunnudagur, 1. september 2019 Mannlíf