- Advertisement -

Minnihlutinn vill friða Elliðaárdal

Allir minnihlutaflokkarnir í Reykjavík vilja friða Elliðarárdalinn. Í bókun þeirra í borgarráði segir:

„Fulltrúar D, M, F og J leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns uppbyggingu mannvirkja sem gengið getur nærri slíkum svæðum og viðkvæmu lífríki þeirra. Fulltrúar flokkanna telja rétt að unnið verði að því, í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun, að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst.

Standa þarf vörð um græn svæði í borgarlandinu, gróðursetja þarf fleiri tré og gæta þess að uppbygging svæðanna snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar.“

Meirihlutaflokkarnir brugðist með gagnbókun, þar sem segir:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var Elliðaárdalurinn afmarkaður og skilgreindur sem borgargarður og settur sem slíkur undir hverfisvernd. Auk þess er skilgreint helgunarsvæði Elliðaáa 100 m frá hvorum bakka og þar er engin uppbygging heimil og leyfi til framkvæmda mjög takmarkað. Innan borgargarðsins eru aðeins heimilaðar framkvæmdir sem samræmast útivist, svo sem stígagerð. Það er mikilvægt að uppbygging á húsnæði í Reykjavík gangi hratt og vel og að allir innviðir sem fylgi nýjum hverfum séu til fyrirmyndar. Það er skýrt kveðið á um að ekki sé gengið á græn svæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og er þessi uppbygging í fullu samræmi við þá stefnumörkun. Uppbyggingin við Vogabyggð er mikilvæg fyrir fjölgun íbúða í borginni og er leitt að sjá vilja til að tefja þetta mikilvæga mál. Breytingin sem liggur fyrir hefur engin áhrif á mögulega verndun Elliðaárdalsins og snýr að breyttri afmörkun skipulagssvæðisins til þess að hægt sé að skipuleggja grunnskóla sem þjóna mun hinu nýja hverfi. Vert er að geta að ef dalurinn yrði friðlýstur skv. náttúruverndarlögum myndi borgin missa yfirráð yfir dalnum og þau færast til ríkisins.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: