Minnihlutinn segist ekki fá að sjá gögn
Árið 2015 gerði innri endurskoðandi skýrslu um SEA þar sem komu fram 30 ábendingar um úrbætur. Fjórum árum síðar var eingöngu búið að leysa úr sex af þrjátíu atriðum.
„Nú er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að kalla eftir skýringum um hvernig á þessu standi. Það er ámælisvert að vísa bréfi sem stílað er á borgarstjórn með spurningum til innri endurskoðanda og æðstu embættismanna borgarinnar til fjármálasviðs. Bréfið er stílað á borgarstjórn en borgarfulltrúar fá það ekki afhent,“ bóka fulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarráði, að Sósíalistaflokki undanskildum.
Bókun þeirra hefst þó á öðru máli. „Í embættisafgreiðslum er að finna bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 18. mars 2019, um eftirlit og eftirfylgni með virkni innra eftirlits Reykjavíkurborgar. Í bréfinu er borgin krafin svara vegna vanrækslu. Árið 2015 gerði innri endurskoðandi skýrslu um SEA (skrifstofa eigna og atvinnuþróunar) þar sem komu fram 30 ábendingar um úrbætur. Fjórum árum síðar var eingöngu búið að leysa úr sex af þrjátíu atriðum.“
Fulltrúar meirihlutans svöruðu svona:“
Þegar bréf berast Reykjavíkurborg eru þau sett í farveg þannig að þeim megi svara innan frests. Það gildir um bréf eftirlitsnefndar eins og önnur. Svar vegna fyrirspurna eftirlitsnefndar um störf innri endurskoðunar verður lagt fyrir borgarráð og borgarstjórn þegar þau liggja fyrir, líkt og hefðbundið er.“