Minni kaupmáttaraukning eftir lífskjarasamningana
Gunnar Smári skrifar:
Verulega hefur dregið úr kaupmáttaraukningu miðað við launavísitölu (meðaltal tímakaups reglulegra launa). Kaupmáttaraukning frá júní 2018 til júní 2019 er aðeins rúmlega 0,9% og hefur ekki verið minni síðan í ársbyrjun 2013. Eins og fram kemur hjá hagfræðisdeild Landsbankans benda tölur frá apríl til að lægstu laun hafi hækkað meira en hæstu laun, en nýrri tölur liggja ekki fyrir. Launavísitalan fyrir maí og júní bendir til að verulega hafi dregið úr kaupmáttaraukningu.
Stundum er því haldið fram kjósendur kjósi með veskinu. Síðast þegar dró jafn mikið úr kaupmáttaraukningu og nú, í ársbyrjun 2013 (0,37% árshækkun í febrúar), var kosið fáum mánuðum síðar og ríkisstjórn Samfylkingar og VG kolféll. Þar áður dró verulega úr kaupmætti í aðdraganda kosninga 2009 (9,29% árslækkun í febrúar) og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks kolféll. Þar áður má næst sjá minnkandi kaupmáttaraukningu í aðdraganda kosninganna 1995 (0,46% árshækkun í febrúar) en þá féll ekki ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, en meirihlutinn varð svo naumur að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði stjórn með Framsókn. Kaupmáttur hefur lækkað oftar og oftar dregið úr hækkun hans, en það hefur gerst á miðju kjörtímabili og ekki í aðdraganda kosninga.
En það verður ekki aðeins spennandi að fylgjast með kaupmættinum á næstu mánuðum út frá pólitíkinni á þingi. Ef kaupmáttur fellur má reikna með miklu umróti innan verkalýðshreyfingarinnar, en grasrótin þar mun ekki sætta sig við litla kaupmáttaraukningu í kjölfar samninga, sem gerðir voru nýverið. Og þá verður ekki síst horft til kaupmáttar lægri launa.