Ráðstefna Margir helstu visthagfræðingar heims og vísindamenn með áherslu á sjálfbærni munu koma saman og ræða hvernig bregðast megi við auknu álagi á hagkerfi, samfélög og vistkerfi jarðarinnar á slþjóðlegri ráðstefnu visthagfræðinga í Háskóla Íslands dagana 13. til 15. ágúst næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunnar er velferð og jafnrétti innan marka jarðarinnar.
Á fyrsta áratug 21. aldarinnar hafa efnahagskreppur haft veruleg áhrif á fjölmargar þjóðir, álag á náttúruauðlindir eykst sífellt og félagslegt ójafnrétti vex hratt bæði innan og millli þjóða. Sú margþætta vá sem blasir við veldur því að traust almennings á hefðbundnum hagkerfum minnkar og sífellt fleiri sjá þau sem hluta af vandanum. Því leitar fólk nú í auknum mæli lausna, sem leitt geta til aukinnar sjálfbærni og jafnréttis í heiminum. Fjölmargir virtir vísindamenn munu fjalla um rannsóknir sínar á ráðstefnunni, þeirra á meðal Johan Rockström, Daniel O’Neill, Jorgen Randers, Peter Victor, Bina Agarwal, Polly Higgins, Mark Swilling og Paul Raskin.
Ráðstefnan er haldin á vegum International Society for Ecological Economics, ISEE, sem eru alþjóðleg samtök fagaðila sem starfa að því að auka skilning á því að taka þarf til greina við ákvarðanatöku efnahag, samfélag og náttúru, í þeim tilgangi að bæta velferð mannkynsins jafnt sem jarðarinnar.
Alþjóðleg ráðstefna visthagfræðinga er haldin annað hvert ár og var síðast haldin í tengslum við Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2012.