Sjávarútvegur Heildarafli íslenska flotans á fyrstu 9 mánuðum fiskveiðiársins 2013/2014, frá 1. september sl. til loka maí, nam um 832 þúsund tonnum. Til samanburðar var aflinn á sama tíma í fyrra um 1.130 þúsund tonn. Samdrátturinn í heildarafla nemur samkvæmt því um 26,4% eða um 298 þúsund tonnum. Þetta skýrist af mun minni afla í loðnu upp á 352 þús. tonn eða um 76% og síld upp á 2,4 þús. tonn 3,6%, þó hefur kolmunnaveiðin aukist um tæp 60 þús. tonn eða um 59% á milli vertíða. Afli í botnfiski hefur aukist aðeins milli ára um 4 þús tonn þ.e. um 1% aukning. Afli á hryggleysingjum og krabbadýrum dregst saman milli fiskveiðiára um 3,6 þús. tonn eða um 29,8% og er aðalmunurinn vegna samdráttar í veiðum á úthafsrækju og sæbjúgum.
Botnfiskur
Á þessu 9 mánaða tímabili yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip um 15 þúsund tonnum meira af þorski en á sama tímabili á fyrra ári og er það um 8,6% aflaaukning. Ýsuaflinn dregst saman á milli ára um 851 tonn eða 2,3%, aflaaukning er í ufsa um 1,6 þús. tonn eða 3,7%. Í gullkarfa eykst aflinn um 4 þúsund tonn um 11,1%, afli á úthafskarfa dregst mikið saman á milli ára eða um 6,6 þús. tonn sem er 88,7%. Afli dregst saman í blálöngu um 24,4% í keilu um 12,1%, afli eykst í löngu um 6%, mikill samdráttur er í veiðum á steinbít um 1,7 þús. tonn 22,2% í gulllaxi um 3,4 þúsund tonn eða um 31% einnig er samdráttur í veiðum á grálúðu á tímabilinu eða um 1 þús. tonn sem gerir 10%. Samdráttur er í öðrum botnfisktegundum upp á 1 þús. tonn eða 10,2%, en stærstu tegundir þar eru lýsa 965 tn., tindaskata 1.358 tn., hlýri 1.799 tn. og grásleppa 3.281 tn. um 200 tonna samdráttur var í veiðum bæði á tindaskötu 4,7% og grásleppu 14,4%.
Uppsjávarfiskur
Á tímabilinu hefur verið mikil aukning á veiðum í kolmunna eða úr 101,5 þús. tonnum í rúm 161 þúsund tonn. Afli í makríl hafa aukist um 12,1 þúsund tonn eða um 84,9% miðað við sama tíma og á síðasta ári. Samdráttur er á afla bæði á íslensku sumargotssíldinni, eða um 2,5 þúsund tonn sem samsvarar 3,6% samdrætti, og líka á afla á norsk-íslensku vorgotssíldinni eða um 15,5 þúsund tonn eða um 18,9%. Mikill samdráttur er í loðnuafla eða um 352 þúsund tonn sem gerir um 76% samdrátt.
Krabbadýr og aðrir hryggleysingjar
Eins og áður segir þá dróst afli á hryggleysingjum og krabbadýrum saman á milli fiskveiðiára, eða um rúm 3,6 þúsund tonn sem gerir 29,8%. Aukning hefur þó orðið á veiðum á innfjarðarrækju frá fyrra ári, eða 228 tonn sem er 20,9% aukning. Samdráttur er í öðrum rækju- og hryggleysingjaveiðum, en mesti samdrátturinn milli fiskveiðiára er í úthafsrækjuveiðum um 2,4 þús. tonn 31,9% og í sæbjúguveiðum um 815 tonn sem gerir um 61% samdrátt, en veiðar á sæbjúgu voru 1.336 tonn 2012/2013 en 521 tonn 2013/2014 fyrir fyrstu 9 mánuði fiskveiðiáranna.
Nýting aflamarks- og krókaaflamarksbáta á aflaheimildum í þorski og ýsu
Á þessu 9 mánaða tímabili fiskveiðiársins 2013/2014 hafa aflamarksskip nýtt um 89,3% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Þetta er um 0,3% aukning miðað fyrra fiskveiðiár. Þorskafli aflamarksskipa til kvóta á fyrstu 9 mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs nam rúmum 127.228 þúsund tonnum samanborð við 118.682 þúsund tonn á fyrra ári. Aflamarksstaða aflamarksskipa í þorski nemur um 15,2 þúsund tonnum samanborið við um 14,6 þúsund tonn á sama tíma í fyrra.
Þegar litið er til aflamarks í ýsu eftir 9 mánaða tímabil fiskveiðiársins þá hafa aflamarksskip veitt um 19,5 þús. tonn og nýtt um 84,9% ýsukvótans. Eftir fyrstu 9 mánuði fiskveiðiársins standa eftir heimildir í ýsu fyrir aflamrksskip upp á 3.460 tonn.
Aflamarksskip höfðu í lok maí nýtt 84,4% af aflaheimildum sínum reiknað í þorskígildum það sem af var fiskveiðiárinu sem er aðeins minna hlutfall og á sama tíma í fyrra sem var 87,1%.
Krókaaflamarksbátar hafa nýtt um 79,6% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Þetta er um 3,5% aukning miðað fyrra fiskveiðiár. Þorskaflinn hjá þeim var kominn í um 25,7 þúsund tonn í lok maí miðað við 22,2 þúsund tonn frá sama tíma á fyrra ári. Aflamarksstaða krókaaflamarksbáta í þorski nemur um 6,6 þúsund tonnum samanborið við um 7 þúsund tonn á sama tíma í fyrra.
Afli krókaaflamarksbáta í ýsu er um 7 þús. tonn á þessu fiskveiðiári og hafa þá nýtt um 92,6% leyfilegs heildarafla í ýsu, miðað við 95,2% á síðasta fiskveiðiári. Eftir fyrstu 9 mánuði fiskveiðiársins standa eftir heimildir í ýsu fyrir krókaaflamarksbáta upp á einungis 562 tonn.
Krókaaflamarksbátar höfðu í lok maí nýtt 78,3% af aflaheimildum sínum reiknað í þorskígildum það sem af var fiskveiðiárinu sem er aðeins hærra hlutfall og á sama tíma í fyrra sem var 77,3%.