Minkar eiga hvorki heima í íslenskri náttúru né í pínulitlu búri
Ágúst Ólafur Ágústsson:
„Ég fullyrði að ræktun minka vegna skins þeirra er algjör tímaskekkja og ekki í neinu samræmi við nútímann þegar kemur að dýravernd.“
Ég hef stundum sagt að mér finnst að umræðan um umhverfismál eigi ekki bara að snúast um landslag heldur einnig um dýravelferð. Satt best að segja stendur Ísland sig ekkert sérstaklega vel í þeim efnum. Í gær bárust síðan fréttir að danskir aðilar hafa áhuga að opna minkabú á Íslandi.
Á Íslandi eru nú starfrækt 9 minkabú með minna en 30 störfum samtals og skiptir minkarækt því nær engu máli efnahagslega. Markaðsverðið á skinni er meira að segja oft lægra en framleiðslukostnaðurinn. Ég fullyrði að ræktun minka vegna skins þeirra er algjör tímaskekkja og ekki í neinu samræmi við nútímann þegar kemur að dýravernd. Fjölmargir fataframleiðendur eru löngu hættir að nota skinn úr lifandi dýrum.
Minkaeldi er nú þegar bannað í mörgum löndum, þar á meðal í Bretlandi, Hollandi, Austurríki og Noregi (eftir 2025) og Frakklandi (eftir 2026).
Við ættum því að banna minkaeldi eins og þessar þjóðir, en ekki reyna að laða erlenda gaura til landsins sem vilja auka það!
Þessi norður-amerísku dýr eiga hvorki heima í íslenskri náttúru né í pínulitlu búri vegna skinns þeirra.