Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki skrifaði grein og birti í Mogganum. Sá hluti greinarinnar er birtur hér að neðan.
Í dag er talið að sex milljónir íbúa frá Venesúela séu að flýja bág kjör og slæmt stjórnarfar í heimalandinu. Þeir sem þekkja gleggst til þessara mála telja að einn daginn muni sú staðreynd skapa algert ófremdarástand við landamærin. Allt bendir til þess að stór hluti hælisleitenda frá Venesúela greiði glæpahringjum til að komast til Íslands. Þegar hælisleitandinn er kominn til Íslands og fer á framfærslu ríkissjóðs koma krumlur glæpahringjanna á ný og krefjast hærri greiðslu. Glæpahringirnir hafa umboðsmenn hér á landi sem halda áfram að innheimta og beita fólkið harðræði við innheimtuna. Þannig lendir fjármagn frá íslenskum skattgreiðendum í höndum glæpahringja. Glæpahringja sem nota íslenska skattpeninga til að fjármagna mansal og hryðjuverk.
Raunveruleikinn á Íslandi er annar en fólk heldur. Umræðan hefur leitast við að kæfa þá sem reynt hafa að sporna við fótum. En þeir sem virða engin landamæri og skilja ekki að hverri krónu verður ekki eytt nema einu sinni telja að Ísland geti tekið á móti t.d. milljónum hælisleitenda frá Venesúela. Þetta fólk vill ekki sjá að hér eru allir innviðir sprungnir, það vantar margar blokkir undir hælisleitendur bara til næstu áramóta. Og á næsta ári má reikna með að þúsundir bætist í hópinn að öðru óbreyttu. Á það fólk að búa í gámahverfum þar sem skólar og félagsþjónusta eru löngu sprungin? Reynsla annarra þjóða er að slík gettómyndun er stórhættuleg hverju samfélagi.