Það eru ekki bara einsfulltrúa flokkarnir þrír, Sósíalistaflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins, sem eru í minnihluta borgarstjórnar. Þar er líka Sjálfstæðisflokkur. Innan hans er ófriður. Það er annað mál.
Hildur Björnsdóttir er númer tvö. Kemur næst á eftir Eyþóri Arnalds. Hildur skrifar í Mogga dagsins og skýtur á Dag B. Eggertsson borgarstjóra..
„Nýlega birti Reykjavíkurborg niðurstöður ábatagreiningar vegna ferðaþjónustu í Reykjavík. Komst borgin að þeirri niðurstöðu að kostnaður Reykjavíkur af ferðamönnum næmi 8,3 milljörðum króna árlega umfram tekjur. Blaut tuska í andlit atvinnugreinar sem skilar meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegurinn og stóriðjan samanlagt. Þúsundir starfsmanna ferðaþjónustu sitja undir þeim þunga krossi að vera álitnar fjárhagslegur baggi á borginni.
Að venju er auðvelt að hrekja tölfræðiæfingar borgarstjóra. Árið 2015 greindi Deloitte opinberar tekjur og gjöld vegna ferðamanna. Varlega áætlaðar niðurstöður þess árs sýndu 11 milljarða nettótekjur sveitarfélaga af ferðamönnum. Frá þeim tíma hafa tekjurnar aukist jafnt og þétt.“
Hildur skrifar: „Borgarstjóri er vissulega í vanda með eigið tölfræðiævintýri. Fullyrðingar hans gefa til kynna að nú, þegar ferðaþjónustan liggur niðri, ætti hagur borgarsjóðs að hafa vænkast sem samsvarar 8,3 milljörðum. Það kæmi sér sannarlega vel – nú á þessum viðsjárverðu tímum – ef rétt reyndist.“
-sme