Alþingi
„Hérna erum við að auka erlendar lántökur til að standa á bak við Grindvíkinga. Það er alveg klárt mál að annaðhvort þurfum við að fara í mikið aðhald í ríkisfjármálunum eða hækka skatta til að afla tekna til að greiða þennan pening. Það er miklu betra að hækka skatta, taka bankaskattinn, auka veiðileyfagjaldið og láta breiðu bökin í samfélaginu taka þátt í að greiða þessa 30 milljarða heldur en að vera að dæla inn í hagkerfið 30 milljörðum kr. sem eykur verðbólguna eins og enginn væri morgundagurinn,“ sagði Eyjólfur Ármannsson Flokki fólksins, á Alþingi skömmu fyrir maraþonpáskafrí þingmanna.
„Við erum í dag með stýrivexti upp á 9,25% og það eru fjölskyldur í landinu sem búa við það að afborganir af lánum hafa hækkað margfalt, um hundruð þúsunda. Þessi viðbótarpeningur inn í íslenskt hagkerfi mun ekki slá á verðbólguna, hann mun auka á hana. Seðlabankinn lækkaði ekki stýrivexti síðast, þeir eru 9,25%, og það er fyrirsjáanlegt að þessir peningar sem koma inn í hagkerfið muni leiða til þess að Seðlabanki Íslands fari ekki í lækkunarferlið nægilega snemma. Það mun bitna á fjölskyldum í landinu um tugi milljarða króna, líklega hærri fjárhæð en þessa 30 milljarða,“ sagði Eyjólfur.
Síðan sagði Eyjólfur:
„Þess vegna skil ég ekki þessa fjármögnun, að taka erlent lán og dæla því inn í hagkerfið við núverandi aðstæður. Það verður annaðhvort að draga úr ríkisútgjöldum og fá pening þannig til að standa á bak við Grindvíkinga eða hækka skatta. Ég get ekki séð annað. Það er ekki hægt að taka bara lán út í hið óendanlega vegna þess að framtíðarkynslóðir þurfa að borga það. Svo einfalt er það. Þetta skilja allir sem kunna eitthvað í heimilisbókhaldi. Ég get ekki séð að það sé agi í ríkisfjármálum að koma hérna upp í pontu og segja bara: Ég er á móti því að hækka skatta. Hvaðan eiga peningarnir að koma? Það þarf að borga þetta seinna. Hvers vegna í ósköpunum er verið að auka þensluáhrif með þessari fjármögnun? “