Miklir hagsmunir í húfi
Utanríkismál „Fyrir EFTA-ríkin eru miklir hagsmunir í húfi þegar kemur að fríverslun við Rússland, en að sama skapi ríkir eining meðal EFTA-ríkjanna um að brýnt sé að sýna samhug í verki hvað framferði Rússlandsstjórnar í Úkraínu áhrærir“, sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að loknum ráðherrafundu EFTA-ríkjanna, sem var haldinn í Vestmannaeyjum í dag.
Meginviðfangsefni fundarins var staða fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna. Samhljómur var meðal ráðherranna að stefna að því að ljúka samningaviðræðum við Indland eins skjótt og mögulegt væri. Viðræðum EFTA við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan var frestað ótímabundið fyrr á árinu og voru ráðherrarnir samhuga um að þráðurinn yrði ekki tekinn upp aftur í viðræðunum fyrr en friðvænlegar horfir í Úkraínu.
Eitt megin viðfangsefna fundarins voru umræður um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (TTIP). Áréttuðu ráðherrarnir mikilvægi þessarra viðræðna fyrir alþjóðlega fríverslun og undirstrikuðu hve brýnt það væri að EFTA-ríkin héldu áfram að fylgjast náið með viðræðunum. Þá ræddu ráðherrarnir enn fremur gang viðræðnanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu.
Ráðherrarnir ítrekuðu vilja sinn til að endurskoða gildandi fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Kanada, Tyrkland og Mexíkó. Þá ræddu ráðherrarnir jafnframt leiðir til að styrkja tengsl EFTA við MERCOSUR-ríkin (Brasilíu, Argentínu, Paragvæ og Úrugvæ). Í tengslum við ráðherrafund EFTA í Vestmannaeyjum undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna samstarfsyfirlýsingu við Filippseyjar en slík yfirlýsing er oft undanfari fríverslunarviðræðna.
Ráðherrar EES-EFTA ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtenstein ræddu þróun mála á vettvangi EES þ.á m. samningaviðræður um framlög EES-EFTA ríkjanna í Uppbyggingarsjóð EES frá og með næsta ári.
Áréttuðu ráðherrarnir að það væri sameiginlegt hagsmunamál Evrópusambandsins (ESB) og EES-EFTA ríkjanna að tryggja virkni EES-samningsins og að afar brýnt væri að finna lausn á því hvernig staðið verði að þátttöku EES-EFTA ríkjanna í fjölda sérstofnana ESB, sérstaklega á sviði fjármálaeftirlits.
Þá funduðu ráðherrarnir einnig með þingmanna- og ráðgjafanefndum EFTA um fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og þróun EES-samningsins.
Auk Gunnars Braga sóttu fundinn þau Johann Schneider-Ammann, efnahagsmálaráðherra Sviss, Monika Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, og Norbert Frick, sendiherra Liechtenstein gagnvart EFTA, í forföllum Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein.