- Advertisement -

Mikilvægt að sigra Ungverja

Við höfum því nokkurn hag af því að Danir fari áfram.

Gunnar Smári skrifar:

Hvernig valið er inn í handboltakeppni ólympíuleikanna er svolítið flókið. Eins og ég skil þetta fara nokkur lið beint: Gestgjafar Japana, heimsmeistarar Dana og svo álfumeistara; Bahrain frá Asíu, Argentína frá Ameríku og svo sigurvegarar Evrópumótsins og Afríkumótsins, sem byrjar á morgun. Þetta eru sex lið, þar af fjögur klár: Japan, Danmörk, Bahrain og Argentína. Tvo sæti laus. Ef Ísland ætlar að fara þessa leið verður það að verða Evrópumeistari eða tapa fyrir Dönum í úrslitaleik.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Gunnar Smári.

Við þetta bætast síðan sex lið úr umspilsmóti sem háð verður í apríl. Þangað fara tólf lið og hafa átta þegar unnið sér rétt vegna frammistöðu á heimsmeistaramóti eða álfukeppni: Noregur, Frakkland, Þýskaland, Svíþjóð, Króatía og Spánn komust frá HM og Chile og Suður-Kórea frá álfukeppnum. Út af standa tvö sæti úr Afríkukeppninni og tvo frá Evrópukeppninni.

Til að komast í þetta umspil má Ísland ekki missa meira en eitt lið, sem ekki hefur unnið sér sæti í umspilinu eða beint á ólympíuleikana, upp fyrir sig.

Þá er að skoða hvaða lið eru komin í milliriðla, sem hafa unnið sér þátttökurétt í umspilskeppninni. Í öðrum riðlinum eru Króatía, Spánn og Þýskalands með umspilsrétt en Austurríki, Tékkland og Hvíta-Rússland ekki. Í hinum er Noregur og Svíþjóð með rétt og svo Danir ef Íslendingar vinna Ungverja. Án umspilsréttar eru Slóvenar, Íslendingar, Portúgalar og Ungverjar, ef þeir vinna Íslendinga á eftir.

Ísland kæmist áfram ef það yrði í áttunda sæti á Evrópumótinu, að því gefnu að Króatía, Spánn, Þýskaland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk yrðu öll fyrir ofan okkur. Við kæmust ekki í umspil þótt við lentum í þriðja sæti, ef ekkert af þessum liðum færi í úrslitaleikinn.

Þetta er því allt mjög afstætt, það er frekar staða Íslands gagnvart þessum liðum sem ræður en hvaða sæti Íslandi endar í. Eina leiðin til að vera viss er að komast í úrslitaleikinn á Evrópumótinu.

En á þessu stigi er betra fyrir Ísland að hafa sem flestar þjóðir með sem hafa unnið sér rétt til umspils eða þátttöku á ólympíuleikunum. Það var í raun vont fyrir okkur að Frakkar skyldu detta út og það væri vont ef Danir féllu líka úr keppni. Við erum nefnilega innan keppninnar í annarri keppni við þau liða sem ekki hafa unnið sér sæti í umspilinu. Sú keppni gengur út á að vera nr. 1 eða 2 meðal þessara þjóða (megum bara missa eitt af hinum liðunum upp fyrir okkur):

  • Austurríki
  • Hvíta-Rússland
  • Ísland
  • Portúgal
  • Slóvenía
  • Tékkland
  • Ungverjaland (ef við töpum á eftir)

Leikurinn á eftir er hluti af þessari keppni innan keppninnar. En svo er hann líka í raun fyrsti leikur Íslands í milliriðlum, því ef Ísland vinnur tekur það 2 stig með sér inn í milliriðil en ef Ísland tapar fer það stigalaust í milliriðil. Ef það verður jafnt fer það með eitt stig, eins og Ungverjar.

Við höfum því nokkurn hag af því að Danir fari áfram en enn meiri hag af því að Ungverjar fari ekki áfram, til að losna við þá og til að taka með 2 stig yfir í milliriðil.

Í milliriðli mætum við Norðmönnum, Svíum, Portúgölum og Slóvenum og þurfum líklega að vinna þrjá af þessum leikjum til að komast í undanúrslit, mögulega sleppum við með tvo sigra og eitt jafntefli ef hin liðin tæta stig hvert af öðru. Það er vel mögulegt. Alveg eins og það er vel mögulegt að það takist ekki.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: