„Ein helsta hindrunin í vegi námsmanna sem þurfa að treysta á framfærslulán frá Menntasjóði eru reglur um skerðingar á framfærslu vegna tekna námsmanna. Einhleypur nemandi sem býr á stúdentagörðum getur fengið framfærslulán að fjárhæð 196.040 kr. á mánuði miðað við framfærslu í níu mánuði á ári en þarf að greiða 99.999 kr. í leigu. Miðað við neysluviðmið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins má áætla að dæmigerð útgjöld námsmanns séu 244.492 kr. á mánuði. Það munar 48.452. kr. á því að maður sem er með námslán geti lifað, hann er í mínus allan veturinn; sinnum níu eru 450.000 kr,“ sagði Tómas A. Tómasson þegar hann mælti fyrir frumvarpi um breytingar á Menntasjóði námsmanna.
„Ef gengið er út frá því að menntun sé samfélagslega arðbær fjárfesting þá á að sjá til þess að menntun sé öllum aðgengileg án tillits til efnahags. Svo verulegar tekjuskerðingar, þegar grunnframfærslan er eins lítil og raun ber vitni, fela í sér mismunun á grundvelli efnahags. Nám á að vera öllum aðgengilegt en ekki aðeins þeim sem geta treyst á fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni,“ sagði Tommi.
„Þá er það mikilvægur þáttur í menntun margra að læra af vinnu. Nemendur sækja gjarnan um störf sem tengjast námi þeirra í þeim tilgangi að auka við reynslu og þekkingu á viðkomandi sviði. Samfélagið á að taka slíku frumkvæði fagnandi. Eins og kerfið er uppbyggt í dag er lítill fjárhagslegur ávinningur af starfsnámi. Afleiðingarnar eru þær að fyrirtæki og stofnanir hafa tekið upp á því að bjóða námsmönnum launalaust starfsnám. Námsmönnum er því ekki aðeins ætlað að lifa undir fátæktarmörkum heldur eiga þeir einnig að vinna samhliða námi launalaust. Þetta er hættuleg þróun. Það á að verðlauna námsmenn fyrir dugnað, í stað þess að refsa þeim fyrir.
Frumvarp þetta hefur það að markmiði að koma í veg fyrir skerðingar á framfærslu námsmanna vegna launatekna og tryggja að námsmenn geti stundað vinnu samhliða námi í fullri vissu um það að þeir fái að njóta ágóðans.
Ég hef haft nokkur hundruð einstaklinga í vinnu sem voru í menntaskóla þegar þeir byrjuðu að vinna hjá mér en að loknu stúdentsprófi fóru þeir gjarnan í háskólann. Þetta var starfsfólk sem hafði staðið sig yfirmátavel og var verulega gott að hafa í vinnu. En það vildi ekki halda áfram að vinna þó svo ég byði því upp á það vegna þess að þá myndu námslánin skerðast. Þetta er mjög ósanngjarnt. Bæði vil ég halda því fram að þeir sem vinna með námi njóti góðs af þegar þeir koma út í atvinnulífið, þeir hafa tekjur og geta lifað mannsæmandi lífi og er eðlilegt að þeir fái að njóta þess.“