- Advertisement -

Mikilvægast að byggja upp stjórnarandstöðu

…dæmd til að lifa næstu áratugina í verstöð Samherja og félaga sem Bjarni Benediktsson mun færa öll völd og allan auð á Íslandi.

Gunnar Smári skrifar:

Aðspurður um það í Kastljósi í gær hver væri munurinn á ástandinu nú og eftir Hrunið 2008 nefndi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og sá ráðherra sem fer með efnahagsaðgerðir og stýrir þar með hundruð milljarða seðlaprentun þessa dagana, svaraði hann því til að þá hafi verið reiði í samfélaginu en nú væri samstaða. Það má orða þetta svo að 2008 hafi stjórnvöld tapað lögmæti sínu, ríkisstjórnin hrökklaðist frá og sú sem tók við varð framan af að stjórna í takt við kröfur lýðsins (stunda lýðræði, í þeirri merkingu að stjórnvöld stjórni eftir væntingum lýðsins). Nú metur Bjarni það svo að ástandið auki lögmæti stjórnvalda (og það má sjá vísi þess í skoðanakönnunum, þegar áfallið ríður yfir leggur stærri hluti fólks traust sitt á stjórnvöld eða, eins og þekkt er úr sögunni, tekur samstöðuna fram yfir réttlætið eða sannleikann). Það að Bjarni skuli leggja áherslu á þetta undirstrikar hvernig hann upplifir kórónavírusinn og kreppuna sem hann kemur ríðandi á; nánast sjálfkrafa, og án þess að til þess hafi verið unnið, eykst lögmæti stjórnvalda og þar með völd þess, lýðurinn leggur niður gagnrýni sína og aðhald.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta má ekki gerast.

Þetta má ekki gerast. Við þekkjum neikvæðar afleiðingar af þessu. Það gagnrýnisleysi sem fylgdi árásunum á tvíburaturnanna nánast eyðilagði Bandaríkin, hin náttúrulega andstaða stjórnvalda lagði sig nánast niður og studdi með þögninni að stjórnvöld tækju sér meiri völd, skerti lýðréttindi almennings og veikti grunnstoðir lýðræðisins sem byggist á opinni orðræðu og átökum ólíkra sjónarmiða. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum, stjórnmálakerfið, háskólasamfélagið, stjórnsýslan … nánast allar stofnanir samfélagsins hafa síðan lifað dapurt hnignunarskeið.

Við þekkjum síðan sjálf hið gagnstæða úr nýliðinni sögu. Eftir Hrunið 2008 veitti búsáhaldabyltingin stjórnvöldum aðhald um tíma; felldu Hrunstjórnina, ráku yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, að sett væri á fót embætti sérstaks saksóknara í Hrunmálum, tryggðu að kröfur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins væru mildaðar, að Hrunið væri rannsakað af rannsóknarnefnd Alþingis, að efnt væri til stjórnarlagaþings til endurskoðunar stjórnarskrárinnar, hafnaði Icesave-samningnum o.s.frv. Þegar aðhald almennings slaknaði koðnuðu öll baráttumál almennings niður og stjórnvöld tóku afgerandi stöðu með valdinu, ekki síst auðvaldinu, gegn almenningi.

Það að valdamesti ráðherra ríkisstjórnarinnar, sá sem fékk um 400 milljarða króna í síðustu viku að leika sér með og hafa yfirumsjón með, skuli upplifa hversu vald hans vex með hverjum degi kórónafaraldursins, er hrollvekjandi tilhugsun. Það sem er mikilvægast að endurreisa á Íslandi er virk stjórnarandstaða almennings. Ef ekki, erum við nánast dauð, dæmd til að lifa næstu áratugina í verstöð Samherja og félaga sem Bjarni Benediktsson mun færa öll völd og allan auð á Íslandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: