- Advertisement -

MIKIL SPILLING Á ÍSLANDI!

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Lengi vel héldu Íslendingar að engin spilling væri á Íslandi. Þeir lifðu í draumaheimi í þeim efnum. Íslendingar hafa löngum átt erfitt með að svara alþjóðlegum skýrslum. Þannig var það þegar alþjóðastofnanir, sem könnuðu spillingu leituðu til Íslands. Ekki var svarað og á meðan töldu Íslendingar allt vera í lagi hér!

En annað kom á daginn, þegar Panamaskjölin voru birt. Þá kom á daginn, að spilling var meiri hér en á nokkru hinna Norðurlandanna og jafnvel meiri en í allri V-Evrópu. Þrír íslenskir ráðherrar voru í Panamaskjölunum, en engir á hinum Norðurlöndunum og bæði forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann hér voru í Panamaskjölunum. Þetta þýddi að þessir ráðherrar voru með fjármuni í skattaskjólum eða höfðu reynt að koma þeim þangað. Það þýðir ekkert fyrir þessa aðila að segja að þeir hafi greitt skatta hér af umræddum fjármunum. Það verður aldrei upplýst eða sannað, þar eð engar upplýsingar fást um fjármuni sem geymdir eru í skattaskjólum. Menn geta því gefið upp brot af þessum fjármunum og greitt skatta af þeim en það dugar ekki. Aðalatriðið er, að sá sem sendir fjármuni í skattaskjól eða reynir það er að brjóta íslensk lög eða að reyna það. Ráðherrar, sem uppvísir eru að slíku eiga að segja af sér.

En spilling á Íslandi er víðar. Hún er mikil á alþingi. Þar ríkir óhóf og bruðl og samtrygging stjórnmálaflokka sem er ekkert annað en spilling. Allar aukagreiðslur þingmanna eru komnar langt úr hófi fram. Og þegar einn þingmanna braut reglur þingsins um akstursstyrki, ók meira á eigin bíl en reglur heimiluðu (átti að taka bílaleigubíl eftir ákveðinn fjölda ekinna km) þá gerði forsætisnefnd þingsins sér lítið fyrir og þaggaði málið niður, vildi ekki senda málið til siðanefndar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Klausturmálið opinberaði nýja hlið á þingmönnum, sóðalegt orðbragð og umræddir þingmenn sátu að sumbli á Klausturbar í vinnutíma alþingis, áttu m.ö.o. að vera á þingfundi alþingis. Þetta er spilling.

Margir þingmanna hafa svikið kosningaloforð sín frá síðustu kosningum, m.a. þingmenn, sem sitja í ráðherrastólum. Það er spilling. Nauðsynlegt er að finna leiðir til þess að binda endi á það, að stjórnmálamenn geti lofað öllu fögru í kosningum og svikið það um leið og búið er að kjósa. Það er spilling.

Eitt af síðustu verkum alþingis fyrir jólafrí var að stórhækka styrki til stjórnmálaflokka og rýmka hvað fyrirtæki og einstaklingar mættu gefa flokkum og frambjóðendum í kosningastyrki. Samþykkt var að hækka það sem mætti gefa til flokka úr 400 þúsund kr í 550 þús. eða um 37,5%. Þetta er spilling.-

Alþingismenn fordæmdu margir ofurlaun alþingismanna, ráðherra og embættismanna, sem kjararáð á ábyrgð þingsins ákvað. En þegar til kastanna kom hafði aðeins einn þingmaður manndóm í sér til þess að standa gegn þessum hækkunum (Jón Þ. Ólafsson). Hinir vildu allir halda í hækkanirnar, þar eð þeir áttu sjálfir í hlut.

Spilling á hæsta stigi á stóran þátt í að kjaradeilan er torleyst. Meira síðar. Af nógu er að taka.

PS: Laun þingmanna 1,1 milljón á mánuði. Formenn flokka 50% álag til viðbótar. Alls 1650 þús. Formenn nefnda 15%  álag til viðbótar. Engin krónu móti krónu skerðing!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: