Hvort þeir skilji en vilji ekki gera það sem gera þarf.
Styrmir Gunnarsson skrifar að venju grein í Morgunblaðið í dag, laugardag.
Í lok greinarinnar segir hann:
„Það er mikil hætta á ferðum. Að óbreyttu eru fram undan alvarlegustu verkföll sem hér hafa skollið á áratugum saman. Langvarandi stöðvun atvinnurekstrar af þeim sökum getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lítil og meðalstór einkafyrirtæki. Þegar upp er staðið úr slíkum vinnudeilum, annars vegar með mikið rekstrartap vegna stöðvunar og hins vegar með miklar kostnaðarhækkanir fram undan, verða viðbrögð fyrirtækjanna óhjákvæmilega þau að draga úr kostnaði með uppsögnum starfsfólks.
Slíkar aðgerðir til viðbótar við samdráttareinkenni, sem eru byrjuð að koma fram sbr. uppsagnir í byggingariðnaði og árangurslausa loðnuleit, sem eru verulegt áfall fyrir þjóðarbúið, þýða að allir tapa, bæði launþegar og atvinnurekendur, en líka þeir stjórnmálamenn og flokkar sem hafa látið það gerast án þess að grípa inn í.“
Framar í greininni skrifar Styrmir:
„Vandinn er sá að ráðandi stjórnmálamenn virðast ekki skilja þennan kjarna málsins, a.m.k. ekki ef tekið er mið af opinberum ummælum þeirra almennt, en svo koma við og við stöku umsagnir sem benda til annars.
Og þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort þeir skilji en vilji ekki gera það sem gera þarf. Það er heldur ótrúlegt vegna þess að þeir og flokkar þeirra eiga mikið undir að takast megi að leysa þessa deilu með friðsamlegum hætti, að ekki sé talað um samfélagið allt.“