Mikið sem allir eru pirraðir
Eftir að hafa horft á hluta síðasta borgarstjórnarfundar og á Alþingi í gær vekur furðu hversu margir eru pirraðir. Í fúlu skapi. Pirraðastur er jafnan þingforsetinn Steingrímur J. Sigfússon. Hann á bágt með að sýna yfirvegun og vera til fyrirmyndar. En það eru fleiri sem eiga bágt með þetta.
Ég sat eitt sinn með vel þekktum stjórnmálamanni. Við vorum einmitt að ræða framgöngu stjórnmálamanna. Sá reyndi, sagði að þau sem eru í meirihluta, fara með völdin, eigi umfram allt að sýna stillingu. Gæta þess að störfin gangi sem best. Ekki efna til ófriðar.
Tveir borgarfulltrúar meirihlutans, Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírati og Líf Magneudóttir vöktu athygli fyrir harkalegan málflutning gegn fulltrúum minnihlutans. Nokkuð sem var með öllu óþarft. Eitt er að vera annarrar skoðunar. Annað að orða hugsanir sínar með látum.
Talandi um læti. Steingrímur J. Sigfússon fellur aftur og aftur í sama farið. Að ætla að stjórna þingfundum með látum. Og það miklum. Forseti Alþingis þarf að vera hafinn yfir þras og þrætur. Hann fær ekki virðingu með því að vera manna æstastur.
„Binni hann sótti í sjávardjúp, sextíu þúsund tonn,“ samdi Ási í Bæ um Binna í Gröf, hörkutól og margfaldan aflakóng. Binni virkaði sem harður maður. Allan sinn skipstjóraferil kallaði hann aldrei eða öskraði á sína menn á dekkinu. Aldrei. Sama á hverju gekk. Hann ávann sér virðingu sinna manna. Annað en hægt er að segja um Steingrím.
Einkum virðist Steingrímur eiga bágt með að umbera Pírata. Það er hans vandamál. Ekki Pírata.