„Hrunið varð til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins hrundi“
Styrmir Gunnarsson ritstjóri er einn þeirra manna sem hefur áhyggjur af framtíð Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar í Moggann í dag:
„Hrunið varð til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins hrundi. Áður var flokkurinn áratugum saman með 37-42% fylgi í þingkosningum en fékk í þingkosningunum 2017 25,3% og í könnun Gallup fyrir skömmu 23,7%.“
Aftur og aftur hefur Styrmir kallað eftir að innan flokksins verði þessi staða rædd:
„Umræður um þetta fylgishrun eru af skornum skammti á vettvangi flokksins og málið afgreitt með því að vísa til fjölgunar flokka. Það er yfirborðsleg skýring en hins vegar ljóst að þetta langvarandi fylgistap auðveldar vinstriflokkunum að ná því markmiði að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá aðild að stjórn landsins eftir kosningarnar í haust.“
Miðjan virðist vera helsta málið. Framsókn segir að framtíðin ráðist þar. Styrmir er sama sinnis. Þangað vill að Sjálfstæðsflokkurinn beiti sinni gagnsókn:
„Viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við þessari stöðu hljóta að verða þau að hefjast handa um að endurheimta sitt fyrra fylgi. Það verður ekki gert nema með því að hefja gagnsókn inn á miðjuna og sú sókn tekst ekki nema með því að breyta áherzlum og ásýnd flokksins.“
Styrmir kemur að hinni ógnarsterku samtryggingu stjórnmálanna. Sem er mikið mein.
„Samtrygging innan þess hóps hefur lengi verið til umræðu en sennilega í ríkari mæli seinni árin og áratugi. Það má finna í umræðum manna á milli um kjaramál kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna og í vaxandi mæli um fjármögnun skattgreiðenda á starfsemi stjórnmálaflokka, sem mörgum finnst vera komin úr böndum. Óútkljáð deilumál á borð við fiskveiðistjórnarkerfið hafa haft svipuð áhrif,“ skrifar ritstjórinn.
„En hvað sem slíkum vangaveltum líður er nokkuð ljóst að baráttan í þingkosningunum í haust mun snúast um kjósendur á miðjunni, sem er svo sem ekkert nýtt en verður líklega harðari en oft áður.“